Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ræðir við Blinken og Lavrov um árásir á Gaza

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að ræða ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs við Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, þegar þeir koma hingað til lands í vikunni. Hún ætlar að hvetja bæði ríkin til að beita sér á alþjóðavettvangi til að ná fram friðsamlegri lausn.

Þetta kom fram í svörum forsætisráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum Halldóru Mogensen, þingflokksformanns Pírata, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Halldóra sagði að það væri ekki nóg að tala, einnig væri hægt að grípa til aðgerða. Hún sagði að svör Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um málið virtust gefa til kynna að hann hygðist ekkert aðhafast nema einhver annar gerði það fyrst. Þá velti hún fyrir sér hvort ályktun þingflokks Vinstri grænna væri málfundaræfing og innantómt hjal meðan ríkisstjórnin brygðist ekki við af meiri festu.

epaselect epa09206071 Smoke rises after an Israeli air strike hits in Gaza City, 17 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least ten Israelis to date. According to the Palestinian Ministry of Health, at least 192 Palestinians, including 58 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eldur lýsir upp næturhimininn eftir loftárás Ísraela á Gaza í nótt.

Ólöglegar aðgerðir

Katrín sagði afstöðu íslenskra stjórnvalda skýra, að virða eigi alþjóðalög og að landtaka og árásir á óbreytta borgara séu ólöglegar. Hún sagði mikilvægt að koma á vopnahléi sem fyrst og ná síðan friðsamlegri lausn til frambúðar. Sú vinna ætti að hvíla á tveggja ríkja lausninni.

„Ég mun í öllu falli nýta tækifærið þegar ég funda með utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun og utanríkisráðherra Rússlands á fimmtudaginn og taka upp þessi mál og hvetja þessi ríki til að beita sér á alþjóðavettvangi til að ná fram friðsamlegri lausn á þessum málum,“ sagði hún.

Katrín sagði utanríkisráðherra hafa rætt við norskan samstarfsmann sinn um helgina. Norðmenn eiga sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þar hafi utanríkisráðherra komið á framfæri stefnu Íslands um að virða eigi alþjóðalög.

Megi ekki skýla sér bak við aðra

Þorgerður Katrín sagði að Ísland ætti að taka skýra afstöðu með mannréttindum og gegn ríkjum sem fari gegn öðrum þjóðum með hernámi og ekki síst með árásum á almenna borgara.

„Við getum beitt okkur víða í alþjóðasamfélaginu en við megum heldur ekki hafa það þannig að við skýlum okkur á bak við til að vera svolítið stikkfrí frá eigin hugsjónum og hugmyndafræði,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún voni að ályktun þingflokks Vinstri grænna eigi ekki að vera einhvers konar syndaaflausn.