Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Örlítil hjöðnun í maí en verðbólgan er samt þrálát

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tólf mánaða verðbólga mælist 4,4% í maí gangi spá greiningardeildar Íslandsbanka eftir en hún var 4,6% í apríl. Það byggir á spá bankans um 0,4% lækkun vísitölu neysluverðs í mánuðinum.

Húsnæðisverð setur svip sinn á vísitöluna og mat bankans er að verðið muni hækka áfram í maí enda eftirspurn húsnæðis mikil og framboð minna.

Húsnæðisverð skýrir um 20% af verðbólgunni þessa dagana en innfluttum vörum mátti þó kenna stærstan einstakan hluta verðbólgunnar í apríl, eða sem nam tveimur prósentustigum.

Verðbólga hefur verið þrálát undanfarið en bankinn telur þó að toppnum hafi verið náð í apríl og að útlit sé fyrir að nú taki við hjöðnun en þó rólegri en áður var gert ráð fyrir.

Ásamt því að íbúðaverð hækki ekki úr hófi er ein helsta forsenda bankans fyrir hjöðnun verðbólgu styrking krónunnar á komandi vikum og misserum, einkum taki ferðamenn að flykkjast til landsins á ný síðar á árinu. Eins getur hækkun flutningskostnaður og hrávöruverðs aukið í verðbólguna.

Gangi spáin eftir býst Íslandsbanki við 4,2% verðbólgu í ágúst. Búist er við að 2,5% verðbólgumarkmiðum Seðlabankans verði náð um mitt árið 2022 og að verðbólga verði í námunda við markmiðin næstu tvö ár.