Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lögðum mikið í þessa formennsku

Mynd: RÚV/Freyr Arnarson / RÚV/Freyr Arnarson
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir áhuga aðildarríkjanna á fundinum sýna aukið vægi Norðurskautsráðsins. Hann er ánægður með hvernig til hefur tekist þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi sett strik í reikninginn.

„Bara það að allir ráðherrarnir séu að koma og það sé orðin regla, það segir okkur hvað Norðurskautsráðið hefur orðið mikilvægara og mikilvægara með árunum. Við lögðum mjög mikið í þessa formennsku og erum mjög ánægð með hverju það skilaði þrátt fyrir að þetta væri við einstaklega erfiðar aðstæður. En við sýndum það að það er hægt að ná fram markmiðum þrátt fyrir að við höfum ekki náð að funda eins og við ætluðum að gera því það stóð til að hafa mjög mikið af viðburðum á Íslandi.“

Segir ráðið standa utan við skákborð stórveldanna

Mörgum hættir til að líta á norðurslóðir sem skákborð stórveldanna, enda hafa átök þeirra um yfirráð á svæðinu vart farið framhjá neinum. Guðlaugur Þór segir að fram til þessa hafi að mestu tekist að halda þeirri refskák utan við störf ráðsins. „Þeir sem að stofnuðu Norðurskautsráðið, þeir lögðu upp með það að þessi hefðbundnu öryggis- og varnarmál væru fyrir utan, menn væru að einbeita sér af því sem snýr að Norðurslóðum og það hefur sem betur fer gengið eftir að stærstum hluta. Auðvitað er ákveðin spenna og við þekkjum það en í það heila þá hefur þetta samstarf gengið vel.“

Ráðherra vonast til að afgerandi yfirlýsing utanríkisráðherra Rússlands um yfirráð Rússa á svæðinu verði ekki til þess að fundur ráðherranna á fimmtudaginn verði átakafundur. „Við vonum nú ekki og eins og ég segi, undirbúningurinn hefur gengið vel. En auðvitað á fundum sem þessum þá er aldrei hægt algjörlega að sjá fyrir hvað gerist.“