Kálfar á bæ Árnýjar fengu nöfnin Gagna og Magna

Kýr á bæ Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur á Suðurlandi bar tvo kálfa 17. maí 2021. Þær fengu nöfnin Gagna og Magna eftir Gagnamagninu.
 Mynd: Íbúar Norðurgarðs

Kálfar á bæ Árnýjar fengu nöfnin Gagna og Magna

17.05.2021 - 15:56

Höfundar

Kýrin Taug á bæ fjölskyldu Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttir Gagnarmagnara frá Norðurgarði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, bar tveimur kálfum um hádegisbil í dag. Kvígurnar hafa fengið nöfnin Gagna og Magna. Ýmsar hugmyndir voru uppi um nafngiftir en þetta var niðurstaðan, tvö íslensk og góð nöfn, sem hæfa þeim vel.

Ýmsar tillögur að nöfnum komu fram, til dæmis Fyr & Flamme eftir dönsku listamönnunum í ár. Þau nöfn hlutu þó ekki náðir fyrir augum ábúenda Norðurgarðs þar sem þau þótti ekki nægilega íslensk. Þannig komu nöfnin Gagna og Magna til sögunnar. „Gagna og Magna eru hressar, búnar að fá fyrsta mjólkursopann en Taug er svolítið eftir sig eftir burðinn en verður eflaust fljót að jafna sig,“ segir Árný.

Aldrei neitt vesen á mömmunni

Þetta er fimmti burður Taugar, sem á nú sex afkvæmi. „Þetta er ágætis kýr, mjólkar vel og er spök. Það er aldrei neitt vesen á henni svo ég muni. Hún þurfti reyndar að fá smá aðstoð við þennan burð enda kom önnur kvígan á hvolfi og hin með afturfæturna á undan,“ útskýrir Árný. Hún segir að heppilegt sé að Taug hafi borið tveimur kvígum. Kvígur, sem á naut sem tvíbura, verður nefnilega oftast ófrjó. Fyrir allra áhugasömustu kúaspekúlanta landsins gefur Árný það upp að sæðingarnautið eða faðir kálfanna er ungnautið Háfur 18028.

Á heimabæ Árnýjar, Norðurgarði, fer fram alls kyns búskapur. „Við erum þar með kýr, hross, kindur, hænsni, hunda og ketti. Aðallega erum við í mjólkurframleiðslu en við ölum einnig nokkra grísi fyrir Laxárdals svínabúið. Svo er nýhafin grænmetisrækt á blómkáli, spergilkáli og hvítkáli og við vonumst eftir góðu gróðurári í ár.“

Árný segir alltaf „við“ þó hún sé nú lítið í búskapnum um þessar mundir. Skiljanlega, þar sem hún er nú í fullu starfi í Gagnamagninu.

Kýrnar á bænum hafa áður borið um það leyti sem Eurovision-veislan stendur sem hæst. Árný minnist þess til dæmis að önnur kýr á bænum bar tveimur kálfum kringum keppnina 2019. 
 

Kýr á bæ Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur á Suðurlandi bar tvo kálfa 17. maí 2021. Þær fengu nöfnin Gagna og Magna eftir Gagnamagninu.
 Mynd: Íbúar Norðurgarðs
Gagna og Magna með mömmu sinni, kúnni Taug.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég var ekkert vinsæl í skólanum“

Innlent

„Við tökum niðurstöðunum þegar þær koma“

Menningarefni

Gagnamagnshljóðfærin verða á sviðinu, sama hvað

Menningarefni

Allt galopið í Eurovision-veislunni sem framundan er