Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimmföld aukning í kaupum á ferðaþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Íslendingar voru í ferðahug í apríl og greiddu rúmlega fimmfalt meira fyrir ferðaþjónustu í ár en í fyrra. Landsbankinn telur góða framvindu í bólusetningum fyrir COVID-19 og afléttingar takmarkana skýra þennan aukna ferðavilja.

Þetta sýnir nýjasta greining hagfræðideildar Landsbankans á veltu innlendra greiðslukorta.

Takmarkanir vegna COVID-19 faraldursins voru mjög miklar á þessum tíma í fyrra. Það hefur áhrif á þennan samanburð sem er greinilegur ef aprílmánuður þessa árs er borinn saman við apríl 2019, fyrir tveimur árum. Þá var veltan í ferðaþjónustu 76 prósentum meiri en nú.

Þá mælist sex prósenta samdráttur í heildarkortaveltu ef apríl er borinn saman við sama mánuð 2019.

Samtals var kortavelta í verslun og þjónustu innanlands 68 milljarðar króna. Það er 21 prósents aukning milli ára. Neysla var meiri hér innanlands en hefur verið, en aðeins tólf prósent af kortaveltunni var erlendis. Kortavelta erlendis í apríl 2019 var um 22 prósent, áður en heimsfaraldurinn braust út.  

Íslendingar keyptu sjö prósentum minna áfengi í apríl í ár, en í fyrra. Það er í fyrsta sinn sem samdráttur verður milli ára í sölu á áfengi frá upphafi heimsfaraldursins, séu sömu mánuðir bornir saman milli ára. Íslendingar keyptu þó áfengi fyrir 42 prósentum meira í ár en árið 2019.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, í starfsnámi á fréttastofu RÚV.