Fann fyrir miklum aukaverkunum eftir bólusetningu

epa04284247 British musician Eric Clapton performs on stage at the Stadthalle venue in Vienna, Austria, 26 June 2014.  EPA/HANS KLAUS TECHT
 Mynd: EPA - APA

Fann fyrir miklum aukaverkunum eftir bólusetningu

17.05.2021 - 13:07

Höfundar

Eric Clapton mátti þola hrikalegar aukaverkanir eftir að hann var bólusettur með bóluefni AstraZeneca. Hann gagnrýnir fullyrðingar um að bólusetningar séu fullkomlega öruggar.

Í kjölfar veikindanna skrifaði Clapton bréf til ítalska arkitektsins Robin Monotti Graziadie, en sá hefur verið mjög gagnrýnin á sóttvarnaraðgerðir og lokanir ítalskra yfirvalda. Í bréfinu, sem var birt í breskum fjölmiðlum, segir Clapton að hann hafi mátt þola miklar aukaverkanir í 10 daga eftir að hafa verið sprautaður með bóluefni AstraZeneca. Eftir sprautuna hafi hann svo fengið að vita að hann fengi næsta skammt 12 vikum síðar. Eftir aðeins sex vikur var hann boðaður í næstu sprautu og þá hafi aukaverkanirnar verið enn verri. Hann hafi fundið til dofa í fingrum og gat lítið notað þá í tvær vikur. Hann segist hafa óttast að geta aldrei aftur spilað á gítar. 

Í bréfinu segist Clapton þjást af taugasjúkdómi og hafi því ekki átt að fá bóluefni frá AstraZeneca en hann hafi fallið fyrir stanslausum áróðri um að bóluefnið væri algjörlega öruggt fyrir alla. 

Aukaverkanirnar sem Clapton lýsir eru þó í samræmi við upplýsingar stjórnvalda um mögulegar aukaverkanir af bólusetningu en svo mikil veikindi séu þó sjaldgæf aukaverkun. 

Clapton hefur áður verið gagnrýninn á aðgerðir breskra stjórnvalda í faraldrinum og í fyrra gaf hann út lagið Stand and Deliver ásamt Van Morrison til að mótmæla lokunum sem stjórnvöld stóðu fyrir.