Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Breytum ekki leiknum en stjórnum sviðsljósinu

Mynd: RÚV/Freyr Arnarson / RÚV/Freyr Arnarson
Utanríkisráðherrar allra aðildarríkja Norðurskautsráðsins koma saman í Hörpu en það er aðeins í þriðja skipti sem það gerist. Ekki er búist við að miklar breytingar verði á starfsemi ráðsins þegar Rússar taka við keflinu af Íslendingum.

Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí 2019 en Rússar taka við formennskunni á fimmtudaginn. Frá því ráðið var stofnað árið 1996 hefur markmið þess verið að vera vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum.

Átta ríki eiga aðild að ráðinu, Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Þar að auki eiga sex samtök frumbyggja á norðurslóðum sæti í ráðinu auk þess sem þrettán önnur ríki eiga áheyrnaraðild. Utanríkisráðherrar aðildarríkjanna sækja allir fundinn í Hörpu en fulltrúar annarra ríkja taka þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Þetta er aðeins í þriðja skipti frá stofnun ráðsins sem utanríkisráðherrar allra aðildarríkjanna mæta til fundar og er það sagt til marks um vaxandi vægi ráðsins.

Formennskuríkið stýrir áherslunum

En hvaða þýðingu hefur að gegna formennsku í ráðinu og hvaða vægi hefur það?

„Ég hef stundum sagt að það að vera í formennsku Norðurskautsráðsins er í raun eins og að vera leikstjóri yfir söngleik sem er búinn að ganga í langan tíma. Við breytum í sjálfu sér ekki söngleiknum, við getum ekki rekið alla leikarana, við getum mögulega bætt við einum eða tveimur nýjum, nýjum verkefnum eða nýjum leikurum. En kannski mest um vert þá stjórnum við sviðsljósinu. Við getum dregið það fram sem við viljum leggja áherslu á í starfi ráðsins,“ segir Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins.

Á von á átakalausri yfirfærslu

Áhersluatriði Íslands voru fjögur; fólk og samfélög á norðurslóðum, loftlagsmál og græn orka, málefni hafsins og sterkara og öflugra norðurskautsráð. Einar segir að Rússar séu að mörgu leyti með sambærilegar áherslur og Ísland og því megi eiga von á átakalausri yfirfærslu. Þótt samskipti Rússa við vesturveldin séu með allra stirðasta móti segir Einar ekki ástæðu til að óttast að það hafi áhrif á störf ráðsins.. „Norðurskautsráðinu hefur tekist mjög vel upp með það að halda þessari stórveldapólitík fyrir utan ráðið og á undanförnum árum þegar átök milli stórveldanna hafa eiginlega sett mark sitt á flest annað alþjóðasamstarf, þá hefur tekist að keyra samstarfið í Norðurskautsráðinu áfram án teljandi vandræða.“