Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Árásir næturinnar þær þyngstu til þessa að sögn íbúa

Mynd: EPA-EFE / EPA
Ísraelski herinn hélt loftárásum sínum á Gasa-svæðið áfram aðfaranótt mánudags. Íbúar á Gasa segja árásarþunga næturinnar hinn mesta síðan stríðið hófst fyrir viku síðan og meiri en aðfaranótt sunnudags þegar 42 dóu.

Fregnir af mannfalli hafa enn ekki borist eftir árás næturinnar. Þriggja hæða bygging skemmdist mikið í árásunum. Íbúar hennar segjast hafa fengið tíu mínútna viðvörun áður en árásin var gerð og öllum tókst að komast í skjól.

Loftárásirnar í nótt ollu miklu rafmagnsleysi og skemmdu hundruð bygginga. Á þriðja hundrað hafa dáið í stríðinu. 201 Palestínumaður hefur fallið fyrir hendi Ísraela, þar af 58 börn og fimmtán eldri borgarar.

Ísraelsher segir í yfirlýsingu að skotmörkin hafi verið heimili níu háttsettra leiðtoga Hamas. Herinn gerði ekki grein fyrir mannfalli í árásunum. Árásir næturinnar voru jafnframt þriðja umferð árása á neðanjarðargangakerfi Hamas-liða. 54 orustuþotur vörpuðu sprengjum á þetta 15 kílómetra net ganga sem meðal annars liggja undir íbúðahverfum.

Á myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt má sjá myndir AP-fréttastofunnar af reyk stíga til himins eftir sprengingar í Gasa-borg. Heyra má orustuþotur á flugi.

Mannskæðasti dagur stríðsins

Á sunnudag dóu 42 Palestínumenn í árásum Ísraels, þar á meðan minnst átta börn og tveir læknar. Það var mannskæðasti dagur stríðsins til þessa.

Þessi lota átaka í stríði Palestínu og Ísraels hófst eftir að Hamas skaut eldflaugum að Jerúsalem á mánudaginn fyrir viku síðan. Sú árás var gerð í kjölfar margra vikna átaka palestínskra mótmælenda og ísraelskra lögreglumanna í Jerúsalem. Palestínumennirnir höfðu mótmælt hústöku ísraelskra borgara á heimilum palestínskra fjölskylda.

Á þeirri viku sem liðin er hefur Ísraelsher gert mörg hundruð loftárása á Gasa. Árásirnar eru sagðar miðaðar að hernaðarmannvirkjum Hamas. Palestínumenn hafa skotið meira en 3.100 eldflaugum á Ísrael.

Á meðan skot ísraelska hersins, eins fullbúnasta hers heims, hitta oftast í mark, geiga skot Hamas oftar en ekki. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ætlar að halda árásunum áfram, þrátt fyrir ákall ríkja heims um að hætta.