Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Von á nokkrum vélum frá „rauðum svæðum“ í kvöld

Gylfi Þór Þorsteinsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Búist er við að þau fjögur sóttkvíarhótel sem eru til taks fyllist í dag. „Við erum tilbúnir með nýtt sóttkvíarhótel og mér sýnist að kvöldið verði áhugavert því það er von á mörgum vélum frá rauðum löndum,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttahúsa hjá Rauða krossinum. Alls lenda átta flugvélar í Keflavík í dag og kvöld, þar af þrjár frá löndum þar sem farþegar þurfa skilyrðislaust að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli.

Þetta eru vélar frá Stokkhólmi, París og Varsjá en sú síðastnefnda lendir í kringum miðnætti.

Gylfi Þór reiknar með að sóttkvíarhótelin fjögur sem þegar eru í notkun verði þá orðin full og því verði að opna það fimmta við Rauðarárstíg. Hingað til hefur það aðallega verið notað fyrir Íslendinga sem geta ekki verið í einangrun eða sóttkví heima hjá sér.

Samkvæmt núgildandi reglugerð þurfa farþegar frá 17 löndum að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli milli fyrri og seinni sýnatökunnar. Farþegar frá 131 landi til viðbótar þurfa einnig að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli en geta sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara.

Ný reglugerð tekur síðan gildi á þriðjudag en þá fer Pólland út af lista yfir þá farþega sem þurfa skilyrðislaust að vera á sóttkvíarhóteli. Pólverjar sem hingað koma geta þá sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara. Þeir verða eftir sem áður að uppfylla ströng skilyrði um heimasóttkví.

Samkvæmt reglugerðinni verða farþegar frá 15 löndum að vera skilyrðislaust í sóttkví á sóttkvíarhóteli. Farþegar frá 163 löndum geta sótt um undanþágu með tveggja daga fyrirvara en þurfa annars að vera á sóttkvíarhóteli.

Alls greindust fimm með smit innanlands í gær og voru þeir allir í sóttkví. Fjórir af þeim tengjast hópsýkingunni í Skagafirði. Tveir greindust með veiruna á landamærunum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hann hafi ekki sent neitt minnisblað til heilbrigðisráðuneytisins um tilslakanir á aðgerðum innanlands. 

Hann er aftur á móti að leggja lokahönd á minnisblað sitt um fyrirkomulag greininga en bregðast þarf við vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Þórólfur sagði við fréttastofu á föstudag að hann hefði verið í viðræðum við Íslenska erfðagreiningu, og auk þess skoðað aðra möguleika.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV