Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vildi játa á sig sakir hér til að komast hjá framsali

16.05.2021 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um framsal á litháískum karlmanni til Litháen. Hann liggur þar undir grun um að hafa fyrir fjórum árum notfært sér bágindi fjögurra einstaklinga og sannfært þá með blekkingum um að flytja kókaín til Íslands með því að fela það í líkama sínum.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi um tíma verið í farbanni vegna framsalsbeiðninnar en frá 2. janúar hefur hann setið í gæsluvarðhaldi. Stjórnvöld í Litháen óskuðu fyrst eftir framsali hans í apríl 2018 og svo aftur í nóvember fyrir tveimur árum.

Maðurinn hefur verið til rannsóknar í nokkrum sakamálum hér á landi, meðal annars fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og auðgunarbrot. Hann hefur hlotið nokkra dóma í heimalandi sínu, var til að mynda dæmdur fyrir tvær árásir á sambýliskonu sína í nóvember fyrir fimm árum.

Maðurinn hefur ekki verið ákærður í neinum af þeim málum sem eru til rannsóknar hér á landi en virðist hafa reynt eftir fremsta megni að komast hjá framsali til Litháens.

Hann gaf þannig skýrslu hjá lögreglu í byrjun mars þar sem hann játaði á sig sök í fimm málum og gekkst meðal annars undir DNA-próf í einu þeirra. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að þetta hafi enga þýðingu fyrir úrlausn framsalsins því rannsókn hafi þegar verið hætt í þremur af þessum málum. 

Maðurinn sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði kosið að vera í gæsluvarðhaldi á Íslandi þar sem hann væri þá í öruggu umhverfi og viðurkenndi að hafa farið huldu höfði hér á landi.

Hann kvaðst ekki muna hvenær hann hefði endanlega komið til landsins en hann hefði komið hingað nokkrum sinnum á árinu 2016 eða 2017. Hann ætti hér nokkra vini en enga ættingja og hefði hlotið hér dóm.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að þótt einhver mál væru til rannsóknar hér á landi bæri að staðfesta þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að framselja manninn til Litháens.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV