Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sunnulækjarskóli vann Skjálftann 2021

Mynd með færslu
"Tímaflakkarinn" tryggði liði Sunnulækjarskóla sigur í Skjálftanum 2021 Mynd: Ingibjörg Torfadóttir - Skjálftinn

Sunnulækjarskóli vann Skjálftann 2021

16.05.2021 - 23:10

Höfundar

Nemendur í Sunnulækjarskóla á Selfossi fóru með sigur af hólmi í Skjálftanum 2021, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum á Suðurlandi. Grunnskólinn í Þorlákshöfn hreppti annað sætið en Bláskógaskóli á Laugarvatni náði bronsinu.

Tilhugalífið í tímans rás

Í atriði Sunnulækjarskóla, sem ber heitið Tímaflakkarinn, er ferðast um tíma og rúm frá árinu 1900 til dagsins í dag og skoða hvernig samskipti fólks í tilhugalífinu hafa breyst í gegnum tíðina. Dómnefnd þótti mikið til um hve mikið var lagt í handrit atriðisins, jafnt talað mál sem söngtexta, og ekki síður um metnað og hæfileika flytjenda út í gegn.

Hvers vegna eiga stelpur alltaf að passa sig?

Nemendur í Grunnskóla Þorlákshafnar fluttu atriðið „Af hverju?“ þar sem fjallað er um kynbundið ofbeldi og svara leitað við þeirri spurningu, hvers vegna stelpum sé stöðugt kennt að passa sig. Hæfileikaríkir flytjendur og hnökralaus og metnaðarfullur flutningur, skýr og mikilvægur boðskapur og greinileg ástríða fyrir viðfangsefninu fleyttu þeim í annað sætið.

Strengjabrúður nettröllanna

Strengjabrúður, atriði Laugvetninga, fjallar um ást nútímamanneskjunnar á skjánum sínum og hvernig hún leiðir til þess að fólk missir tengingu við fólkið sitt, sjálft sig og veruleikann þegar nettröllin taka yfir. Dómnefnd segir atriðið vel æft og vel unnið og úrfærsla þess mjög góð, og fær tengingin sem sköpuð er milli nettrölla og íslenskra tröllasagna sérstakt hrós.

Stefnt að stærri Skjálfta að ári

Vegna fjöldatakmarkana og sóttvarnareglna var ekki hægt að halda Skjálftann fyrir fullu húsi áhorfenda. Þess í stað var hann tekinn upp og sendur út á rúv2 og vefnum UngRUV.is. Að þessu sinni tóku einungis skólar úr Árnessýslu þátt í þessu svari Sunnlendinga við Skrekk höfuðborgarinnar, en stefnt er að því að allir skólar á Suðurlandi, allt austur að Höfn í Hornafirði, taki þátt að ári. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Torfadóttir - Skjálftinn
Atriði Grunnskóla Þorlákshafnar, Af hverju?, hlaut meðal annars lof fyrir metnaðarfulla kóreógrafíu
Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Torfadóttir - Skjálftinn
Strengjabrúður, atriði Laugvetninga, tengdi nettröll nútímans við tröllasögur íslenska þjóðsagnaarfsins með skapandi hætti

Tengdar fréttir

Menntamál

10 boðorð Langholtsskóla sigurvegarar Skrekks