Sér Ísafjörð fyrir sér sem miðstöð skútusiglinga

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Sér Ísafjörð fyrir sér sem miðstöð skútusiglinga

16.05.2021 - 20:10

Höfundar

„Það er náttúrlega bara eitthvað heillandi við það að sigla undir seglum og vera út á hafi,“ segir Elvar Vilhjálmsson, sem er á siglinganámskeiði á skólaskútunni Teistu í Skutulsfirði. Það er fyrirtækið Aurora Arktika sem býður upp á námskeiðin sem hófust fyrr í vor.

„Við finnum fyrir mjög auknum siglingaáhuga. Það er fólk sem þráir að læra að sigla.  Við erum búin að vera með ferðir hérna á skútunni Auroru,  hlaupaferðir og  skíðaferðir og allskonar en það er að þróast út í það að fólk langar til að sigla. Og það er gott að hafa vettvang til að æfa líka okkar skipstjóra framtíðarinnar og einnig hefur ekki verið mjög aðgengilegt aðgengi að námskeiðum fyrir fólk sem er ekki í siglingaklúbbum. Svo er líka bara svolítið um að fólk vilji bara koma vestur til að sigla,“ segir Ólafur Kolbeinn Guðmundsson, sjómaður og annar eiganda Aurora Arktika. 

Ólafur segir vilja til að festa námskeiðin í sessi á Ísafirði. „Ísafjörður hefur allt til að bera til að vera miðstöð skútusiglinga á Íslandi.“