Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segist beita hörku þar til öryggi Ísraels er tryggt

16.05.2021 - 12:38
epa09197057 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (L) greets as he meets with Israeli border police, after a wave of violence in the city between Arab and Jewish in the Israeli city of Lod, near Tel Aviv, Israel, 13 May 2021.  EPA-EFE/YUVAL CHEN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - YEDIOTH AHRONOTH POOL
Þrjátíu og þrjú eru látin í árásum Ísraelshers á Gaza það sem af er degi. Forsætisráðherra Ísraels segir hörku beitt þar til öryggi þeirra verði tryggt. Öryggisráð Sameinuðu þjóðana ræðir stöðuna á opnum fundi síðar í dag.

Í morgun féllu 33 í einni og sömu árásinni á Gaza, sem eru sú mannskæðasta til þess. Frá því á mánudag hafa minnst 180 látist í árásum Ísraelshers, á meðal þeirra eru að minnsta kosti 52 börn. Ísraelsher segir að um 3.000 flugskeytum hafi verið skotið á Ísrael frá Gasa frá því á mánudag. Tíu Ísraelar hafa látið lífið í flugskeytaárásum Hamas og Islamic Jihad til þessa, þar af tvö börn. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að haldið verði áfram að bregðast við af hörku, þar til öryggi Ísraela verði tryggt á ný. 

Fengu klukkustund til að forða sér og sínu

Það vakti hörð viðbrögð margra þegar Ísraelsher sprengdi í loft upp skrifstofur alþjóðlegra fjölmiðla í gær, þar á meðal AP og Al Jazeera. Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er „sleginn" vegna hins mikla mannfalls meðal almennra borgara á Gasaströnd og „verulega brugðið" vegna árásar Ísraels á bækistöðvar nokkurra alþjóðlegra fjölmiðla í Gasaborg. Hann  segir að handahófskenndar árásir á íbúðabyggð og fjölmiðlabyggingar séu brot gegn alþjóðalögum. Íbúar í byggingunni og þau sem þar störfuðu fengu klukkustund til þess að forða sér. Netanjahú segir að viðvörunin hafi gert það að verkum að enginn var drepinn í árásinni, við reynum allt til að forðast dauðsföll almennra borgara segir hann. Gary Pruitt, forstjóri AP, segir þau hafa sloppið naumlega við mannfall. Tólf fréttamenn þeirra á staðnum hafi komist út og þau hafi einnig náð að bjarga stærstum hluta búnaðarins. 

Að söng ísraelskra stjórnvalda voru Hamas-samtökin með starfsemi í byggingunni sem ógnaði öryggi Ísraels. Þetta er dregið í efa í yfirlýsingu fréttastofu AP. Þar er kallað eftir því að ísraelsk stjórnvöld færi sönnur á mál sitt. AP hefur haft aðsetur í byggingunni í fimmtán ár og engin merki séð um Hamas. Við athugum það eftir okkar bestu getu enda myndum við aldrei stofna starfsfólki okkar í hættu, segir í yfirlýsingunni. 

Ellefu hæðir, 60 íbúðir og ein lyfta

Í frétt Al Jazeera er farið yfir atburðarásina. Þar kemur fram að al-Jalaa byggingin hafi verið ellefu hæðir og þar var aðeins ein lyfta sem virkaði. Þar voru sextíu íbúðir og nokkur fjöldi skrifstofa. Börn og eldra fólk gengu fyrir í lyftunni og aðrir hlupu upp og niður stigana og reyndu að hafa með sér allt hvað þau gátu. Þau sem höfðu tök á gripu börn með sér niður stigana. Fréttamenn AP og Jawad Mahdi eigandi byggingarinnar reyndu að fá auka tíu mínútur til þess að ná í myndatökuvélar og annan búnað sem varð eftir. Beiðninni var hafnað og stuttu síðar var byggingin sprengd i loft upp.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á opnum fjarfundi klukkan tvö í dag, til að ræða stöðu mála. Fulltrúar Noregs, Kína og Túnis óskuðu eftir fundinum sem stóð til að færi fram síðasta föstudag en Bandaríkin höfnuðu því og var honum því frestað.