Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir sýknu ekki þýða að hinn sé að ljúga

16.05.2021 - 16:23
Mynd: Skjáskot / RÚV
Halldóra Þorsteinsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjaness, segir reyndina ekki þá að þegar einhver er sýknaður í kynferðisbrotamáli þýði það að hinn sé að ljúga. Hún veltir því upp hvort yfirvöld geti með einhverjum hætti komið til móts við þá sem fara í gegnum allt kerfið með kynferðisbrot sem síðan lýkur með sýknudómi. Það geti verið í formi áfallahjálpar vegna brots sem ekki tekst að sanna og úrvinnslu á því að málið hljóti ekki brautargengi í kerfinu.

„Það má ekki alltaf vera þessi hugsun að einhver sé sýknaður og það þýði að hún eða hann sé að ljúga. Þetta er auðvitað ekki þannig,“ sagði Halldóra í Silfrinu í dag.

Þar ræddu hún og Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur, nýja #metoo-bylgju. Hana má rekja til viðbragða við máli fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar. Tvær konur hafa lagt fram kæru á hendur honum, önnur fyrir líkamsárás en hin fyrir kynferðisbrot. 

Dómstólar hafa fengið sinn skerf af gagnrýni, ekki síst eftir að í ljós kom að Landsréttur hefur mildað fjörutíu prósent kynferðisbrotadóma - mun oftar en í öðrum málum.

Halldóra sagði rétt að halda því til haga að margt hefði breyst í þessum málum ef horft væri þrjátíu til fjörutíu ár aftur í tímann.

Fyrir aðeins aldarfjórðungi hefðu dómar í svona málum verið taldir í mánuðum en nú gætu þeir verið nokkur ár. „Það hefur mjög mikið átt sér stað. Ákall almennings hefur leitt til lagabreytinga sem síðan hafa ratað til dómstóla. Refsingar hafa hækkað, það eru miklu fleiri mál sem eru dæmd og miklu fleiri mál sem ákært er í.“

Fólk yrði aftur á móti að hafa í huga að sakborningi væru alltaf tryggð ákveðin réttindi og það væri ekki neitt sér-íslenskt fyrirbæri heldur tíðkaðist meðal þjóða í hinum vestræna heimi. Gerð væri mjög ítarleg sönnunarkrafa í sakamálum sem byggðist á því að betra væri að tíu sekir gengju lausir en einn saklaus sæti í fangelsi.

„Ef við ætluðum að breyta sönnunarkröfum í þessum málum værum við að brjóta allar þær skyldur sem á okkur hvíla, bæði alþjóðlegar en líka gagnvart stjórnarskránni,“ segir Halldóra. 

Drífa benti á að rannsóknir hefðu sýnt að þeir sem kærðu svona brot væru ekki endilega að gera það til að fá einhvern dæmdan sekan eða til að fá bætur. „Þetta snýst um að fólk geti fengið að segja sína sögu, að á það sé hlustað og því trúað.“ 

Hægt er að horfa á umræðuna í heild hér fyrir ofan.