Play fær flugrekstrarleyfi - fyrsta vélin væntanleg

16.05.2021 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Samgöngustofa hefur afgreitt flugrekstrarleyfi flugfélagsins Play og var fyrsta flugvél félagsins afhent í Houston í Bandaríkjunum. Verið er að mála vélina í flugskýli en þegar því verki er lokið kemur hún til Íslands og er þá tilbúin að fljúga með fyrstu farþegana. Búið er að semja við flugvélaleiguna AerCap um leigu á tveimur flugvélum til viðbótar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play. Tilkynningin markar tímamót því  ákveðið tómarúm myndaðist í samkeppni hér innanlands um millilandaflug með gjaldþroti WOW air fyrir tveimur árum.

Flugfélagið stefnir á flugtak í næsta mánuði og ætlar að fljúga til Lundúna, Parísar, Kaupmannahafnar, Alicante og Tenerife. Áætlanir gera ráð fyrir að miðasala hefjist í lok þessa mánaðar.

Haft er eftir Birgi Jónassyni, forstjóra Play, að flugvirki á vegum Play hafi verið í Houston undanfarnar vikur til að undirbúa vélina til afhendingar. „Í vikunni bættust í hópinn fleiri flugvirkjar, áhöfn og fulltrúar Samgöngustofu til að taka vélina út fyrir íslenska skráningu sem lauk svo seint í gærkvöldi, á íslenskum tíma, með flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu.“

Play var kynnt til leiks á blaðamannafundi í nóvember fyrir tveimur árum og ætlaði að hefja sig til flugs skömmu síðar. Af því varð ekki. Fjármögnun gekk ekki sem skyldi og svo skall kórónuveirufaraldurinn með þeim afleiðingum að millilandaflug lá nánast niðri.

Forsvarsmenn félagsins lögðu þó ekki árar í bát, nýttu sér hlutabótaleið stjórnvalda og fyrr á þessu ári var Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, ráðinn forstjóri.  Fyrirtækinu tókst að safna sér rúmlega fimm milljörðum eftir hlutafjárútboð en meðal þeirra sem lögðu pening í verkefnið voru Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og lífeyrissjóðurinn Birta. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV