Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Play ekkert að vanbúnaði að hefja sig til flugs

16.05.2021 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Play
„Þetta er risaáfangi og starfsfólk Play hefur unnið í mjög langan tíma að þessu markmiði,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play. Samgöngustofa hefur afgreitt flugrekstrarleyfi flugfélagsins Play og félagið hefur fengið fyrstu flugvélina afhenta í Houston í Bandaríkjunum. Henni verður svo flogið til landsins þegar búið að er að mála hana í einkennislitum Play.

„Það er gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur að sjá þetta verða að veruleika. Þetta er forsenda þess að við getum kallað okkur flugfélag og rekið flugrekstur. Þannig að nú er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja sölu á miðum og hefja starfsemi,“ segir Birgir.

Stefna á flugtak í júní

Play hefur samið við flugvélaleiguna AerCap um leigu á tveimur flugvélum til viðbótar. Flugfélagið stefnir á flugtak í næsta mánuði og ætlar að fljúga til Lundúna, Parísar, Kaupmannahafnar, Alicante og Tenerife. Áætlanir gera ráð fyrir að miðasala hefjist í lok þessa mánaðar.

Og eruði nokkuð viss um að þið getið byrjað að fljúga í sumar?

„Já, félagið kláraði stórt hlutafjárútboð fyrir um það bil mánuði síðan þar sem söfnuðust um sex milljarðar króna. Félagið er gríðarlega vel fjármagnað og byggjum á þessum góða grunni sem starfsfólkið er búið að vinna. Þannig að við erum alveg klár á því að þetta gerist núna,“ svarar Birgir.