Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óvíst hvort Daði stígur á svið—upptaka kemur í staðinn

16.05.2021 - 14:04
Seinni æfing Daða Freys í Ahoy í Rotterdam
 Mynd: EBU
Óvíst er hvort Daði og Gagnamagnið stígi á stóra sviðið í Rotterdam á fimmtudagskvöld eftir að einn úr íslenska hópnum greindist með COVID-19 í morgun. Verði það niðurstaðan tekur Ísland engu að síður þátt í keppninni því notast verður við upptöku á atriðinu í staðinn.

Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, segir í samtali við fréttastofu RÚV að allur hópurinn fari nú í svokallað PCR-próf og svo verði beðið eftir þeim niðurstöðum. „Það er hins vegar alveg ljóst að við missum af opnunarathöfninni í kvöld og síðan verður að koma í ljós hvort Daði verði á sviðinu á fimmtudagskvöld.“

Eurovision-aðdáendur á Íslandi þurfa þó ekki að óttast því Ísland mun taka þátt í keppninni, sama hvað.

Reglur keppninnar kveða á um að ef upp kemur smit meðal keppenda sé notast við upptöku á atriðinu.  „Fimm daga sóttkví gerir þetta svolítið flókið,“ segir Felix en áréttar að nú sé beðið eftir hver næstu skref verða og það velti á nokkrum atriðum, meðal annars á hegðun hópsins og í hversu nánu samneyti fólk hefur verið við hinn smitaða.  Sá smitaði er ekki hluti af þeim sem verða á sviðinu með Daða en mjög stífar reglur gilda um hvernig eigi að bregðast við ef upp kemur smit.

Felix tekur fram að hópurinn sé rólegur þrátt fyrir þetta áfall og hafi vitað að veiran væri á sveimi. Nú liggi fyrir að hún sé á hótelinu en Ísland er á sama hóteli og pólski hópurinn þar sem einn greindist í gær. „Við vissum að þetta gæti gerst,“ segir Felix.

Holland er eitt af 17 löndum sem eru metin há-áhættusvæði af íslenskum stjórnvöldum. Allir sem koma þaðan þurfa skilyrðislaust að vera í sóttkví á sóttkvíarhóteli.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV