Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Netanyahu segir hernaðaraðgerðir halda áfram

16.05.2021 - 20:00
Mynd: EPA-EFE / EPA
Minnst 42 létust í loftárás Ísraelshers á Gaza-borg laust eftir miðnætti. Forsætisráðherra Ísraels segir ekki útlit fyrir að hernaðaraðgerðum ljúki strax og lítið virðist ganga að miðla málum.

Blessunarlega hefur björgunarsveitum tekist að bjarga einhverjum úr rústunum sem blöstu við á Gaza eftir nóttina. Rétt eftir miðnætti gerði Ísraelsher stærstu árásina til þessa, en minnst 42 fórust í loftárás á fjölfarna götu.

Gaza-svæðið er um 365 ferkílómetrar, eða næstum þrisvar sinnum minna að flatarmáli en höfuðborgarsvæðið. Þar búa þó um tvær milljónir manna og Gaza telst þriðja þéttbýlasta svæði heims. Í dag er sjöundi dagur átaka og mannfallið er orðið gríðarlegt. Minnst 188 eru dáin á Gaza, 55 börn þar á meðal. 

Ísraelsher segir að um þrjú þúsund flugskeytum hafi verið skotið frá Gaza frá því á mánudag. Tíu Ísraelar hafa látist í þeim árásum, þar af tvö börn. Forsætisráðherra Ísraels var í viðtali hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS í dag. 

Ákvörðun Ísraelshers um að sprengja í loft upp byggingu sem meðal annars hýsti skrifstofur fjölmiðlanna Al jazeera og AP hefur vakið hörð viðbrögð. Netanjahú varði þá ákvörðun, byggingin hefði verið lögmætt skotmark því Hamas-samtökin hefðu haft þar starfsemi. Þetta er dregið í efa í yfirlýsingu fréttastofu AP og kallað eftir að ísraelsk stjórnvöld færi sönnur á mál sitt. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman á opnum fundi í dag, Bandaríkin reyndu að fresta fundinum fram í næstu viku en varð ekki erindi sem erfiði. Tvisvar undanfarna viku hafa Bandaríkin einnig neitað að skrifa undir sameiginleg yfirlýsingu frá öryggisráðinu.