Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gripu sprúttsala með skottið fullt af áfengi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögregla stöðvaði bifreið á Reykjanesbrautinni í Kópavogi um klukkan hálfþrjú í nótt, þar sem hún hafði ökumanninn grunaðan um að aka undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Sýni sem tekið var reyndist þó neikvætt en þar með er ekki öll sagan sögð því tveir farþegar voru í bílnum og skottið fullt af áfengi.

Í ljós kom að maðurinn var að skutla fólkinu til Hafnarfjarðar gegn greiðslu og samkvæmt dagbók lögreglu er hinn allsgáði ökumaður grunaður um ólöglega sprúttsölu og leikuakstur án leyfis. Var áfengið í skottinu haldlagt fyrir rannsókn málsins.

Tveir af 220 bílstjórum grunaðir um ölvun

Alls voru um 100 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær til fimm í morgun. Nokkuð var um ölvunar- og vímuakstur í nótt en niðurstöður almenns eftirlits með ástandi ökumanna og ökutækja í gærkvöld bera miklum meirihluta ökumanna þó ágætlega söguna. Af 220 ökumönnum sem stöðvaðir voru í eftirlitinu í Reykjavík og Kópavogi leyndust aðeins tveir sem grunaðir voru um ölvun. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV