Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dæmdur nýnasisti á Evrópuþinginu sendur til Grikklands

epa09201637 Convicted member of the EU parliament and former leading member of far- right party Golden Dawn, Ioannis Lagos (C), is led before the Athens prosecutor, Greece, 15 May 2021. Greek Police officers travelled to Brussels to escort Lagos in his flight back to Athens, after Belgium authorities accepted Greece's extradition request. MEP Lagos fled to Brussels after his conviction but was arrested on a European warrant on 27 April 2021, after his immunity was lifted by European Parliament lawmakers. Lagos was convicted to 13 years in prison by a Greek appeals court in October 2020 for his membership in neo-Nazi party Golden Dawn, ruled to be a criminal organization.  EPA-EFE/PANTELIS SAITAS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Grískur þingmaður á Evrópuþinginu og dæmdur nýnasisti, sem handtekinn var í Belgíu á dögunum eftir að hann var sviptur þinghelgi, var í gær fluttur til Grikklands og færður í hendur þarlendra yfirvalda. AFP fékk þetta staðfest hjá flugvallarlögreglu í Aþenu.

Ioannis Lagos er 48 ára gamall félagi í grísku þjóðernisöfgahreyfingunni Gullin dögun, sem tryggði sér fjölda þingmanna á gríska þinginu fyrir nokkrum árum og nokkra á Evrópuþinginu, áður en hreyfingin var skilgreind sem nýnasistahreyfing og glæpasamtök og bönnuð með öllu.

Grískur dómstóll dæmdi Lagos í þrettán ára fangelsi í október síðastliðnum, þegar hann og nokkrir aðrir leiðtogar Gullinnar dögunar voru sakfelldir fyrir ýmis alvarleg brot, þar á meðal fyrir að stjórna skipulögðum glæpasamtökum.

Lagos var kjörinn á Evrópuþingið 2019 og naut sem slíkur þinghelgi þar til hann var sviptur henni í apríl. Var hann handtekinn í Brussel skömmu síðar og var haldið þar í gæsluvarðhaldi þar til framsalsbeiðni grískra yfirvalda var samþykkt. Grískir sérsveitarmenn sóttu hann til Brussel í gær og fluttu hann til Aþenu, þar sem hann var leiddur fyrir dómara. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV