Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID og veðurguðirnir ógna ferðum á Everest

Mynd með færslu
 Mynd: Mount Everest 8848M - Facebook
Sigurður Bjarni Sveinsson og Heimir Fannar Hallgrímsson, sem ætla að klífa Everest-fjall fyrir Umhyggju, félag langveikra barna, neyddust til að fresta ferð sinni á tindinn vegna óhagstæðrar veðurspár. Þeir ætla að bíða í einn til tvo daga og sjá hvernig vindaspá breytist. Eitt fyrirtæki hefur hætt við ferð sína á fjallið vegna COVID-smits og tveir fjallgöngumenn eru látnir eftir að hafa örmagnast á leið sinni upp á fjallið.

Sigurður Bjarni og Heimir ætluðu að hefja ferð sína á Everest klukkan eitt í nótt að nepölskum tíma. Var stefnan sett á Khumbu Icefall og þaðan beint í grunnbúðir 2 þar sem ráðgert var að hvíla sig. 

Þaðan átti ferðinni að vera heitið í grunnbúðir 3 þar sem einnig átti að hvíla sig áður en haldið yrði í grunnbúðir 4 og síðan tind Everest þar sem Sigurður og Heimir ætluðu að vera 20. eða 21. maí.

Í færslu sem birtist á Facebook-síðu Umhyggju í gær kemur fram að þeir hafi lagt upp með það frá upphafi að skynsemi og heilsa skipti höfuðmáli og að skila sér heim. Þegar hafi orðið alvarleg slys á fjallinu og hópar neyðst til að snúa við vegna veðurs. „Við munum því meta nýjar spár á morgun og næstu daga en erum sannarlega tilbúnir í verkefnið þegar veðurguðirnir gefa okkur grænt ljós.“

Það eru þó ekki aðeins veðurguðirnir sem hafa sett strik í reikninginn.

Fram kemur á vef New York Times að eitt fyrirtæki sé hætt við ferð sína á tindinn eftir að COVID-smit greindist í hópnum. Bandarískur fjallgöngumaður og þrír sjerpar voru fluttir á sjúkrahús frá grunnbúðum Everest vegna veikinda. „Aðrir í hópnum urðu óöruggir og ákváðu þess vegna að hætta við,“ hefur New York Times eftir forsvarsmanni hópsins. 

Bylgja af smitum gengur nú yfir Nepal og blaðið segir algjöra óvissu ríkja um stöðu mála í grunnbúðum Everest. Hundruð fjallgöngumanna hafa verið í grunnbúðum Everest síðan í byrjun mánaðarins og sífellt fleiri farnir að sýna einkenni COVID-sýkingar eða greinst jákvæðir.

Lukas Furtenbach sem skipulagði ferðina sem nú hefur aflýst telur að yfir 150 manns hafi greinst með COVID-19 í grunnbúðunum. New York Times segir ómögulegt að staðfesta þá tölu. „Það er lítið hægt að gera ef einhver smitast af veirunni í svona mikilli hæð, fer að sýna einkenni og veikist,“ segir Furtenbach. 

Þegar hafa tveir látist á þessu tímabili við að reyna að komast á tindinn. Þeir eru taldir hafa örmagnast á leiðinni. Yfirvöld í Nepal hafa sagt útilokað að þeir hafi verið smitaðir af COVID en ekki verður hægt að rannsaka það þar sem lík mannanna eru í svo mikilli hæð. 

Hægt er að klífa Everest bæði frá Kína og Nepal og hafa kínversk yfirvöld ákveðið að fella niður allar ferðir hjá sér vegna kórónuveirufaraldursins. Yfirvöld í Nepal eru ekki á þeim buxunum og segja að enginn hafi greinst með COVID-19 þeirra megin. Um 400 fjallgöngumenn hafa sett stefnuna á tind Everest í ár.