Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Biðlisti hjá Stígamótum þrefaldast á tveimur vikum

16.05.2021 - 22:21
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Biðlisti eftir aðstoð hjá Stígamótum hafa þrefaldast frá því ný bylgja #metoo hófst - með frásögnum hundraða kvenna af ofbeldi sem þær urðu fyrir. „Þetta höfum við séð gerast margoft áður en kannski ekki með jafn miklum þunga og í þetta skipti,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.

Stígamót eru samtök sem veita fólki er hefur verið beitt kynferðisofbeldi aðstoð. Nú eru 162 á biðlista eftir aðstoð þeirra, um 10% eru karlar og því mikill meirihluti konur sem leita sér hjálpar. „Það hafa verið um 50-60 manns á biðlista og núna allt í einu eru þau 160 og við erum að gera allt til í okkar valdi stendur til að taka þetta fólk hratt inn og veita því aðstoð,“ segir Steinunn.

Til þess þurfa samtökin að ráða inn þrjá sumarstarfsmenn. Þau sem bíða lengst eftir aðstoð gætu þurft að bíða fram á haust en Steinunn áréttar að fólk eigi ekki að veigra sér við að hafa samband þrátt fyrir það, allir fái þjónustu eins fljótt og hægt er.

Flestir að leita sér aðstoðar í fyrsta skipti

Frá áramótum hafa 313 haft samband við samtökin, í kringum 45-60 á mánuði en það er greinileg sprenging í maí. Síðustu tvær vikur hafa 97 óskað eftir aðstoð Stígamóta eða síðan önnur bylgja #metoo brast á með hvelli. „Mér sýnist langflestir vera að koma hingað í fyrsta skiptið. Þarna innan um eru aðstandendur og fólk sem hefur komið áður, það er 15-20% af hópnum,“ segir hún.

Stærsti mánuður frá upphafi í Bjarkarhlíð

Þetta sést líka í tölum frá Bjarkarhlíð, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, þar er maí sem nú er aðeins hálfnaður, stærsti mánuðurinn frá upphafi með 118 ný mál. Þar hafa ekki komið inn fleiri mál síðan í júní í fyrra, þá voru þau rúmlega 100 og flestir að leita sér hjálpar eftir langvarandi samkomubann.

Steinunn kallar eftir auknum stuðningi, bæði frá almenningi og stjórnvöldum, til að samtök sem þessi ráði við þörfina fyrir aðstoð.  „Við munum auðvitað hefja samtal við stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, það hlytur öllum að vera ljóst hvað það er mikilvægt að styðja vel við brotaþola.“

Umræðan sterk og afhjúpandi

Steinunn segir að sem fyrr hreyfi þjóðfélagsumræðan við fólki. Fyrsta metoo bylgjan reið yfir hér á landi árið 2017, það var metár hjá Stígamótum. 

Er þessi bylgja kröftugri? „Það er allavega tilfinningin sem við erum með. Að það séu fleiri sem eru að hafa samband á stuttum tíma. Það ýtir svo við fólki þegar umræðan verður svona sterk og afhjúpandi, þetta höfum við séð gerast margoft áður en kannski ekki með jafn miklum þunga og í þetta skipti.“