Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Alltaf einhverjum vísað til baka við komuna til Íslands

Lögreglumaður með grímu fyrir vitum að taka á móti farþegum úr flugi frá Veróna.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
„Það eru alltaf einhverjir sem þurfa að fara til baka,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Bann er í gildi við ónauðsynlegum ferðum hingað til lands frá ákveðnum hááhættusvæðum og það kemur fyrir flesta daga að fólk frá þeim svæðum uppfylli ekki skilyrði um að ferðin sé nauðsynleg.

„Það má segja að flesta daga séu tilvik sem við erum að skoða sérstaklega. Það eru alltaf einhverjir hjá okkur sem eru að bíða eftir að fara til baka. Fólk þarf jafnvel að bíða á hóteli eftir að komast aftur heim,“ segir Arngrímur. 

Minna um að fólk sé sótt á flugvöllinn

Aðstandendur farþega sem eiga að fara í heimasóttkví, jafnvel aðeins á meðan þeir bíða niðurstöðu úr skimun, mega ekki sækja á flugvöllinn nema þeir fari líka í sóttkví. Lögreglan fylgist með því, eftir fremsta megni, hvort fólk sé sótt, og þá hvort sá sem sæki fari líka í sóttkví, segir Arngrímur:

„Já, við höfum verið að fylgjast með því. Það er oft verið að koma með bíl fyrir þá sem eru að fara í heimasóttkví, og einhverjir taka bílaleigubíla og leigubíla. Við reynum að fylgjast með því eins og hægt er. Svo er haft samband við viðkomandi þegar hann er kominn heim og hann jafnvel heimsóttur,“ segir hann. 

Hafiði þurft að hafa afskipti af mörgum sem þið sjáið að eru ekki að fara rétta leið heim?

„Það var talsvert um það í haust og í vetur en þetta hefur mjög svo lagast. Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem koma og sækja. Sumir eru þá jafnvel að fara í sóttkví með viðkomandi, í sumarbústað eða bara heima. Svo eru náttúrulega alltaf fleiri og fleiri að verða bólusettir. En viðkomandi þarf þá alltaf að bíða í sóttkví með þeim sem hann sækir þar til hann fær niðurstöðu úr sýnatöku.“