Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Smitum og dauðsföllum hríðfækkar eftir bólusetningu

15.05.2021 - 23:18
epa09199808 Pupils undergo salivary swabs, at the primary school of Travagliato, near Brescia, Italy, 14 May 2021. These salivary swab tests are like a lollipop candy to hold in the mouth for a minute, and the exam is done. This is the new salivary test to identify the infection from Covid-19.  EPA-EFE/FILIPPO VENEZIA
Grunnskólanemar á Ítalíu fá pinna til að japla á og gefa þannig munnvatnssýni, sem síðan er skimað fyrir COVID-19. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Samanburður á stöðu farsóttarinnar í Bretlandi nú og fyrir sléttum fjórum mánuðum síðan sýnir glöggt hversu mikil og afgerandi áhrif fjöldabólusetning hefur. Ný rannsókn ítalskra heilbrigðisyfirvalda sýnir sömu, óyggjandi niðurstöður.

2.027 manns greindust með COVID-19 í Bretlandi í gær og sjö dauðsföll voru rakin til sjúkdómsins. Þetta er algjör viðsnúningur frá því sem var fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan, þegar önnur bylgja farsóttarinnar geisaði af feiknarafli í landinu.

Þann 15. janúar, fyrir fjórum mánuðum síðan, dóu 1.285 úr COVID í Bretlandi og nær 56.000 greindust með veiruna þann daginn. Munurinn er sá að 15. janúar höfðu um tíu prósent Breta fengið einn skammt af bóluefni. Í dag hafa 53 prósent Breta fengið fyrri skammtinn og 28 prósent þeirra eru fullbólusettir.

Smitum fækkar um 80 prósent og dauðsföllum um 95 prósent

Svipaða sögu er að segja frá Ítalíu. Ný rannsókn sem kynnt var á laugardag leiðir í ljós að nýsmitum fækkar um 80 prósent í öllum aldurshópum, fimm vikum eftir bólusetningu með hvort sem er Pfizer, Moderna eða AstraZeneca-bóluefni.

Sjúkrahúsinnlögnum vegna COVID-19 fækkar á sama tíma um 90 prósent og dauðsföllum um 95 prósent. Rannsóknin er byggð á gögnum Heilbrigðisstofnunar og heilbrigðisráðuneytis Ítalíu um þær 13,7 milljónir sem bólusettar hafa verið frá því í árslok 2020 til 3. maí á þessu ári.