Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slakað verður á sóttvarnaraðgerðum í Skagafirði

default
Sauðárkrókur með Skagafjörð, Málmey og Drangey í bakgrunni Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Látið verður af hertum sóttvarnaraðgerðum á miðnætti annað kvöld vegna hópsmits sem kom upp um liðna helgi í sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Aðgerðastjórn í Skagafirði fundaði um málið í dag þar sem komist var að þessari niðurstöðu álitið er að tekist hafi að ná tökum á hópsmitinu. Aðrar sóttvarnaraðgerðir sem gilda áttu til og með sunnudeginum verða ekki framlengdar.

Frá þeim tíma gilda takmarkanir reglugerðar heilbrigðisráðherra sem sett var 7. maí fyrir sveitarfélögin.  

Skagfirðingar hafa undanfarið búið við strangari samkomutakmarkanir en aðrir landsmenn. Tvö COVID19 smit innan sóttkvíar greindust þar í gær og nokkur smit hafa komið upp í vikunni.

Gripið var til þess bragðs að aflýsa skólahaldi, prófum í framhaldsskólanum var breytt, og loka heimavist skólans lokað og leikskólanum einnig. Sundlaugum og líkamsræktarstöðvum var sömuleiðis gert að loka. Óheimilt var að halda íþróttaviðburði og bann var lagt við íþróttaæfingum barna .

Skagafjörður hefur verið helsta smitsvæðið á landinu undanfarið. Almannavarnir á Norðurlandi vestra vilja brýna fyrir íbúum að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum um leið og þær beina þakklæti til allra fyrir samheldni og samstöðu.