Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Selfoss með fullt hús stiga á toppnum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Selfoss með fullt hús stiga á toppnum

15.05.2021 - 18:48
Selfoss er með fullt hús stiga á toppi Pepsi Max deildar kvenna í fótbolta eftir sannfærandi 3-1 sigur á Stjörnunni. Þá fékk Breiðablik Þór/KA í heimsókn og vann sömuleiðis 3-1.

Á Selfossi kom fyrsta markið eftir hálftímaleik þegar Anna María Friðgeirsdóttir kom heimakonum í forystu eftir hornspyrnu. Þannig stóð þar til á 52. mínútu þegar Betsy Doon Hassett jafnaði metin fyrir Stjörnuna 1-1.

Tíu mínútum síðar átti Brenna Lovera góða sendingu fyrir markið þar sem Unnur Dóra Bergsdóttir var og skallaði boltann í netið og heimakonur aftur komnar í forystu 2-1. Þremur mínútum síðar var Hólmfríður Magnúsdóttir svo á skotskónum og sigldi sigrinum í höfn fyrir Selfoss. Niðurstaðan 3-1 sigur Selfoss sem er nú á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Stjarnan er í 9. sætinu með 1 stig eftir þrjá leiki.

Blikar svöruðu fyrir óvænt tap í Eyjum

Breiðablik tapaði nokkuð óvænt 4-2 fyrir ÍBV í síðasta leik liðsins, eftir 9-0 sigur gegn Fylki í fyrstu umferð. Það kom því ekki á óvart að þær byrjuðu leikinn af krafti og eftir þónokkur góð færi var það að lokum Agla María Albertsdóttir sem kom heimakonum yfir með skallamarki eftir rúmlega hálftímaleik. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og 1-0 stóð í leikhléi.

Snemma í seinni hálfleik fékk Breiðablik svo aukaspyrnu. Agla María tók spyrnuna sem fór í gegnum alla þvöguna, og á milli fóta Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA og staðan orðin 2-0 fyrir Breiðablik. Norðankonur voru þó ekki að baki dottnar og fimm mínútum síðar minnkaði Sandra Nabweteme muninn fyrir norðankonur og 2-1 stóð. Það varði þó ekki lengi því aftur liðu fimm mínútur og Tiffany McCarty gerði þriðja mark heimakvenna og innsiglaði þar með sigurinn, en mörkin urðu ekki fleiri í leiknum, og niðurstaðan 3-1 sigur Íslandsmeistaranna, sem eru nú með 6 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir þrjá leiki en Norðankonur eru með þrjú stig í 7. sætinu.