Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segja gögn sýna að óhætt sé að sleppa bólusettum lausum

epa09200642 People relax and take part in activities in Sheep Meadow in Central Park on a sunny day in New York, New York, USA, 14 May 2021.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna lagði til í vikunni að fullbólusettir þyrftu hvorki að virða tveggja metra regluna né vera með grímu. Stofnunin benti á að rannsóknir sýndu að bóluefnin veittu ekki aðeins vörn gegn kórónuveirunni heldur hægðu einnig á útbreiðslu hennar. Þótt tillögunni hafi víða verið fagnað eru aðrir sem telja stofnunina hafa farið fram úr sér.

Í umfjöllun NBC er farið ítarlega yfir hvernig Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, sem í daglegu tali er kölluð CDC, komst að þessari niðurstöðu. Hún hefur verið sögð marka tímamót í baráttunni við COVID-19 og fyrsta merki þess að það hilli undir lok faraldursins.

Dauðsföll ekki færri síðan í apríl á síðasta ári

Þrjú bóluefni eru notuð í Bandaríkjunum; Pfizer, Moderna og Janssen. NBC bendir á að það séu sannarlega vísbendingar um að bólusetning sé farin að skila sér. Nýgengi smita í Bandaríkjunum síðustu sjö daga hefur lækkað um 23 prósent miðað við vikuna á undan og dauðsföll hafa ekki verið færri síðan í apríl á síðasta ári.

CDC vísar í tillögum sínum til nýlegrar rannsóknar sem gerð var á 6.700 heilbrigðisstarfsmönnum í Ísrael. Þeir voru bólusettir með Pfizer og reyndust vera með 97 prósent vörn gegn einkennasýkingu og 86 prósent vörn gegn einkennalausri sýkingu.

Rannsókn sem gerð var meðal heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum sýndi að bóluefnin veittu 90 prósent vörn gegn einkenna- og einkennalausum sýkingum og önnur rannsókn benti til þess að bóluefni veittu 94 prósent vörn gegn sjúkrahúsinnlögn hjá fólki sem er 65 ára og eldri. 

CDC segir síðarnefndu rannsóknina ákaflega mikilvæga því eitt helsta áhyggjuefnið hafi verið hvaða áhrif bóluefnin hefðu á eldra fólk.

Geta smitast en smita síður og verða ekki mjög veikir

CDC bendir líka á þótt fullbólusettir geti áfram sýkst af veirunni séu tilfellin fá. Af þeim 117 milljónum sem fullbólusettar eru í Bandaríkjunum er aðeins vitað um 9.245 sem greinst hafa með veiruna. Sjúkdómseinkenni þeirra hafa nánast undantekningarlaust verið væg.

CDC leggur líka mikla áherslu á að Pfizer-bóluefnið virki gegn tveimur afbrigðum veirunnar sem hafa verið á sveimi í Bandaríkjunum, annars vegar það breska og hins vegar suður-afríska. Þá hafa rannsóknir sýnt að fullbólusettir smiti síður aðra sem sést á veirumagninu hjá fullbólusettum.

En ekki eru allir jafn sannfærðir og margir óttast að tilmæli CDC leiði til þess að flestir, ekki aðeins fullbólusettir, eigi eftir að fella grímuna. 

Óttast að allir felli grímuna

Á vef Washington Post kemur fram að þessum tilmælum CDC hafi víða verið fagnað en þau líka verið gagnrýnd.

Fjölmargir vísindamenn sem blaðið ræddi við töldu tilmælin ótímabær því enn væru margir óvarðir. Leiðbeiningarnar gætu grafið undan tveimur mikilvægustu aðgerðunum í baráttunni við farsóttina; tveggja metra reglunni og grímunotkun. Vísindamennirnir bentu einnig á þá óþægilegu staðreynd að enn greindust um 35 þúsund manns með veiruna á hverjum degi. 

Lisa Maragakis, sóttvarnasérfræðingur hjá Johns Hopkins-háskólanum, segir við Washington Post að með þessum tilmælum færist ábyrgðin alfarið yfir á einstaklinginn og það sé hans að ákveða hvenær hann sé með grímu og hvenær ekki. „Líklegasta niðurstaðan er sú að enginn verður með grímu.“ Samhliða því eigi hættan á smiti hjá þeim, sem ekki eru bólusettir, eftir að aukast mikið.

Ekki hægt að vita hverjir eru fullbólusettir

Aðrir vísindamenn telja tilmælin geta gengið upp ef hægt er að ganga úr skugga um hverjir eru fullbólusettir og hverjir ekki. Svokölluð bólusetningarvottorð hafa ekki litið dagsins ljós, nokkur ríki hafa tekið fyrir slíkt og ríkisstjórn Joe Biden vill að einkageirinn gefi út slík vottorð.

Þá er óttast að nýju tilmælin geri fólk með veiklað ónæmiskerfi varnarlaust og bent er á að ekki sé byrjað að bólusetja börn undir 12 ára aldri.

Nancy J. Cox, fyrrverandi starfsmaður CDC, segir við Washington Post að það sé enginn tími réttur. „Við erum stödd á þeim tímapunkti að það er nauðsynlegt að koma á framfæri skýrum skilaboðum um gagnsemi bólusetningar. Þetta er eitt skref í þá átt.“

Sum ríki efins - önnur ekki

Þótt sum ríki ætli að taka mið af þessum leiðbeiningum CDC og fella niður grímuskyldu fyrir fullbólusetta eru önnur tvístígandi. Í Pennsylvaníu fá þannig fullbólusettir meira frjálsræði en í Fíladelfíu vilja yfirvöld fara að öllu með gát. „Við skiljum að fólk þrái að láta af grímunotkun en þær hafa verið eitt mikilvægasta verkfæri okkar í baráttunni við COVID-19 og komið í veg fyrir útbreiðslu veirunnar,“ hefur blaðið eftir James Garrow, talsmanni heilbrigðisyfirvalda.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði við fréttastofu í gær að hugsanlega yrði slakað á grímunotkun þegar búið væri að ná 60 til 70 prósent þátttöku í bólusetningu. „Og það ætti að nást svona í júní, júlí, vonandi.“

Fjórði hver Íslendingur sem til stendur að bólusetja telst nú með vörn gegn veirunni, annað hvort sem fullbólusettur eða vegna fyrri sýkingar. Nærri 148 þúsund Íslendingar hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV