Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Samstöðufundir vegna Palestínu víða um Evrópu í dag

15.05.2021 - 21:45
epa09202663 Supporters of Palestine attend a demonstration outside the Israeli embassy in London, Britain, 15 May 2021. Israel Defense Forces (IDF) said they hit over 100 Hamas targets in the Gaza Strip during a retaliatory overnight strikes after rockets were fired at Israel by Palestinian militants.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir þúsunda Evrópubúa fóru í göngur til stuðnings málstað Palestínu í dag. Skipuleggjendur fullyrða að 150 þúsund manns hafi gengið um götur Lundúna, nærri Hyde Park, með skilti með áletrunum á borð við „Hættið sprengjuárásum á Gaza“.

Langar raðir mótmælenda mynduðust á Kensington High Street þar sem sendiráð Ísraels er til húsa. Lögregla kveðst ekki geta staðfest hve margt fólkið var. Viðlíka göngur voru farnar í öðrum borgum Bretlands.

Á þriðja þúsund söfnuðust saman á Puerta del Sol torginu í miðborg Madrídar undir slagorði þess efnis að atburðirnir á Gaza væru ekki stríð heldur þjóðarmorð.

Þúsundir gengu um götur Berlínar og annarra þýskra borga og kröfðust þess að viðskiptabann yrði sett á Ísrael. Skilaboðin voru þau sömu á samstöðufundi á Austurvelli í dag.

Þúsundir komu einnig saman í París, þrátt fyrir að mótmæli væru bönnuð og til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda við bandaríska sendiráðið í Aþenu.

Nokkur hundruð mótmæltu einnig á götum Rómaborgar. Í dag er sjötti dagurinn þar sem sprengjum rignir yfir íbúa á Gaza og eldflaugum er skotið þaðan í átt að Ísrael.