Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ræddu áhrif tungumálsins á #metoo byltinguna

Mynd: Lum3n.com / Pexels
Veruleikinn og hugarheimurinn litast af tungumálinu. Orð eins og „ofbeldi“ getur átt við marga hluti af sama meiði og því er stundum nauðsynlegt að skapa ný orð sem eiga við nýstárlega umræðu. Einnig er áríðandi að kunna að greina orðræðuna. Þetta var meðal þess sem fram kom í samtali um metoo-byltinguna í Vikulokum morgunsins.

Auður Jónsdóttur rithöfundur, Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og stjórnarformaður Hörpu ræddu við Bergstein Sigurðsson.

Ný #metoo bylgja er hafin á Íslandi þar sem konur deila sögum sínum en karlar stíga einnig fram og viðurkenna að hafa gert á hlut kvenna, farið yfir mörk og brotið á þeim.

Auður Jónsdóttir sagði mikilvægt og jákvætt að karlar tækju þátt í umræðunni meira en áður. Hún sagði að mikilvægt væri að geta haldið áfram án þess að þetta marki lítið samfélag á borð við Ísland til framtíðar. 

Hún segist sjá, líkt og fleiri, meiri vilja til að ræða þetta. Ingibjörg tók undir það og að mikilvægt að við sem samfélag opnum fyrir að menn stígi fram, því sé tekið og trúað á að betrun geti átt sér stað. 

„Það hefur vantað stundum upp á að við viljum fyrirgefa, við trúum á betrunina og annað tækifæri, að fólk geti haldið áfram.“ Ingibjörg sagði margt eiga eftir að skoða.

„Við tölum sjaldnast um karlmenn sem þolendur, það er umræða sem á eftir að taka. Við þurfum að vanda okkur í framsetningunni og megum ekki nota verkfæri sem við erum að gagnrýna sem hefur birst í nafnlausum hótunum og öðru.“

Velta þurfi fyrir sér aðferðafræðinni í miðri bylgju. Eiríkur varaði við skrímslavæðingunni og sagði sögu af manni honum kunnugum sem sakaðar var um kynferðisbrot. Hann sagði að hefði hann gert það sem hann var sakaður um væri hann skrímsli og að það væri hann ekki. 

„Menn sem gera svona eru ekki skrímsli. Þegar ég var ungur var menningin allt önnur og margt þótti sjálfsagt og eðlilegt þá, er ekki lagi núna.

„Við sem munum þá tíma og fólk sem tók þátt í þessu þarf að passa sig að gera ekki sjálft sig eða fólk sem það þekkti að brotamönnum þegar hugsað er til baka en jafnframt gera sér grein fyrir því að tímarnir eru breyttir.“

Auður sagði verið að umbylta menningu, en þar sem kallað er eftir betri samskiptum og virðingu er betra sé að samtalið byggi á mannvirðingu.

„Maður sér á miðlunum að verið er að hæðast að gerendum og þeir smættaðir eftir að hafa stigið fram sem er ákveðin klemma því þá minnka líkurnar á samtalinu og að menn stígi fram.“

Bergsteinn sagði áríðandi að útvatna ekki brotin. Auður svaraði því til að þegar gerendur stígi fram geti það haft trámatísk áhrif á þolandann sem væri flókið.  

Ingibjörg sagði þurfa að fara yfir gildin sem við viljum standa fyrir með börnunum og fara yfir viðmiðin. „Og kenna þeim að það sé í lagi að stíga fram og í lagi að gangast við mistökum. Við þurfum að treysta samfélaginu til að fylgja okkur í þeirri vegferð.“

Auður gerði orðið „ofbeldi“ að umtalsefni, hvernig veruleikinn og hugarheimurinn litast af tungumálinu.

„Ofbeldi er flókið orð að því leyti að það á við marga hluti af sama meiði. Ef þú sérð lista yfir gerendur, einn er dæmdur barnaníðingur og einhver sem sagði eitthvað óviðeigandi. Þeir verða allir gerandinn.“

„Ofbeldi býr í bjöguðum samsskiptum og við höfum öll sýnt ofbeldi í samskiptum eða öðru. Þá er þetta gildishlaðna, sterka orð sem hefur áhrif, það verðu kannski aðeins takmarkandi.“

Eiríkur sagði þetta snúið og að orðin hafi þá merkingu sem málsamfélagið gefur þeim. „við getum rakið orð til uppruna síns og sagt þetta merkir bara þetta en þarf ekki endilega að merkja það sama í nútímanum, það skiptir máli hvernig við notum þau.

Hann sagði íslenskuna vera vegsamaða fyrir gagnsæi, hvernig hægt væri að lesa merkingu orða út úr gerð þeirra.

„Gegnsæið flækist stundum fyrir þegar við lesum úr orðunum hvernig þau voru mynduð í upphafi, þau hafa þróast en merkingin breyst og svo kemur einhver sem bendir á hvernig orð sé myndað og því hljóti það að hafa ákveðna merkingu.“

Hann sagði þetta fjarri því að vera einfalt mál en meginatriðið sé að gera sér grein fyrir þessu. Stundum geti verið nauðsynlegt að koma fram með ný orð sem ekki einfalt að endilega að koma í notkun. „Öll miðstýring er svolítið vafasöm.“

Ingibjörg tók undir að orð væru gildishlaðin. „Það er ekki auðvelt að þröngva nýjum orðum inn í umræðuna og skýra í miðri byltingu, ég sé það ekki gerast. Aðgreiningarskorturinn setur alla á sama bekk.“

Sömu hugtök og orðfæri séu notuð yfir einhvern sem sendir óviðeigandi skilaboð eða þann sem beitir grófu ofbeldi. „Þetta eru allt alvarlegir glæpir en eðlismunur samt sem áður og því mikilvægt að vera greinandi í þeirri nálgun.“

Ný orð hafi komið, líkt og gaslýsing, gerendameðvirkni og karlkennd sem opni mjög mikið og hjálpa til við að auka skilning. Auður sagðist bíða eftir að gamla, breska leikritið Gasljós verði sett upp.

Hún útskýrði að með orðinu gaslýsingu væri verið að afskræma eða eyða upplifun manneskju frá henni. „Glæpurinn er að ræna manneskju upplifun hennar.“ Me-too byltingin snúist um upplifun og að hún sé gild. 

Orðaforðinn var ekki endilega til fyrir áratugum þegar mál af þessu tagi voru ekki mikið rædd. Eiríkur sagði nýja umræða um svið sem ekki hafi verið rædd, jafnvel verið tabú líði oft fyrir skort á orðum.

Auður sagðist sakna þess að greining sé gerð á orðræðunni því fólk væri ekki alltaf að átta okkur á merkingu orðanna. Hún hvatti Eirík til að gera það líkt og hann hefur gert í öðrum málum.

Eiríku samsinnti því, sagði samfélagið vera að drukkna í upplýsingum og erfitt væri að vita hvernig ætti að vinna úr þeim. „Það skiptir máli fyrir okkur öll að kunna að greina orðræðuna, orðræðugreiningu sé mikilvægt að kenna í skólum.“ 

Með því verði fólki auðveldað ekki gleypa ekki orðin hrá heldur átta sig á hvaða duldu skilaboðum er verið að koma á framfæri. Læsi í þessa veru þurfi að skoða betur.