Maðurinn á bakvið sögulegt viðtal við Díönu hættir

epa000380408 The first witness for the prosecution in the Michael Jackson child molestation case, English documentarian film maker Martin Bashir (L), walks with attorney Ted Boutrous to  Santa Barbara County Courthouse in Santa Maria, California, Tuesday, 01 March 2005.  EPA/BRENDAN MCDERMID
 Mynd: EPA - RÚV

Maðurinn á bakvið sögulegt viðtal við Díönu hættir

15.05.2021 - 08:59

Höfundar

Fréttamaðurinn Martin Bashir, sem tók viðtalið fræga við Díönu prinsessu árið 1995, hefur sagt starfi sínu lausu hjá BBC af heilsufarsástæðum. Stutt er í að BBC kynni niðurstöður rannsóknar sem fyrrverandi hæstaréttardómari var fenginn til að stýra og beinist að því hvort Bashir hefði beitt óvönduðum meðulum til að ná „skúbbinu“ sem allir helstu fjölmiðlar Bretlands voru að reyna að landa.

Þetta kemur fram á vef BBC og Guardian. Bashir hefur stýrt trúarbragðaumfjöllun BBC.

Bashir var tiltölulega óþekktur fréttamaður hjá BBC þegar honum tókst að fá viðtalið við Díönu og það kom mörgum reyndari fjölmiðlamönnum á óvart þegar hann hreppti hnossið. 

Viðtalið reyndist sögulegt, nærri 27 milljónir horfðu á það í fréttaskýringaþættinum Panorama þar sem prinsessan ræddi andleg veikindi sín, viðurkenndi framhjáhald og lét fræg um ummæli falla um hjónaband sitt og Karls Bretaprins. „Við vorum jú alltaf þrjú þannig að það var þröng á þingi.“

Talið er að viðtalið hafi orðið til þess að áhugi fjölmiðla á Díönu jókst til muna og að endingu lést hún í bílslysi í París á flótta undan paparözzum.

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa alltaf haft vissar efasemdir um hvernig Bashir tókst að fá viðtalið við Díönu. Hann er sagður hafa látið falsa bankaupplýsingar sem áttu að sýna að aðrir fjölmiðlar greiddu starfsfólki hennar fyrir að hlera hana. 

Grafíski hönnuðurinn sem Bashir fékk til að  útbúa þessi skjöl var settur á svartan lista hjá BBC og fékk aldrei vinnu þar aftur. Ferill Bashir fór aftur á móti á mikið flug, hann tók meðal annars alræmt viðtal við Michael Jackson þar sem poppstjarnan viðurkenndi nánast náið samneyti við börn og vann lengi í bandarískum fjölmiðlum þar til hann hætti vegna ummæla sinna um Söruh Palin, þá varaforsetaefni John McCain.

BBC hefur áður látið rannsakað aðdragandann að viðtalinu. Niðurstaða þeirrar úttektar var að þótt Bashir hefði ekki verið að hugsa þegar hann lét útbúa bankaupplýsingarnar væri fyrst og fremst „sómakær og heiðarlegur maður.“ Jafnframt var lagt fram handskrifað bréf Díönu þar sem hún segir  upplýsingarnar ekki hafa átt þátt í þeirri ákvörðun að hún ræddi við Bashir.

Spencer jarl, bróðir Díönu, hefur aldrei gefið mikið fyrir þessa úttekt og kallað lengi eftir óháðri rannsókn þar sem farið yrði í saumana á því hvort Bashir hafi blekkt Díönu. 

Í lok síðasta árs lét BBC síðan undan og fól Dyson lávarði, fyrrverandi hæstaréttardómara, að skoða málið. Er búist við niðurstöðu á næstu vikum.  Dyson á að svara því hvernig Bashir fékk viðtalið, hvort vinnubrögð hans hafi staðist kröfur BBC og hvort uppátæki hans hafi haft áhrif á ákvörðun Díönu að ræða við hann.  

Tengdar fréttir

Erlent

Rannsaka hvort Díana hafi verið ginnt í viðtal