Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum í París

15.05.2021 - 18:50
epa09202459 Protesters return tear gas canisters thrown by riot police during clashes as part of a rally organized by several associations in support of the Palestinian people, in Paris, France, 15 May 2021. The protest was not allowed by the Police Prefecture of Paris but several calls on social networks asked people to gather despite the ban.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Parísarlögreglan beitti táragasi og sprautaði vatni á mótmælendur sem söfnuðust saman til stuðnings málstað Palestínu í dag. Yfirvöld óttast að gyðingahatur blossi upp og bönnuðu því mótmælin.

Talið er að á fjórða þúsund hafi komið saman til mótmæla í Barbes-hverfinu þar sem fjöldi innflytjenda býr. Samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneytinu franska tóku á fimmta þúsund lögreglumanna þátt í aðgerðunum.

Lögregla lokaði götum í hverfinu og stöðvaði för mótmælendanna að Bastillu-torginu. Þegar leið á daginn kólnaði og rigndi sem varð til þess að margir mótmælenda hurfu á braut.

Eftir varð nokkur hópur ungra manna sem tókst á við lögreglu. Þeir kveiktu í ruslafötum og köstuðu steinum og öðru lauslegu að lögreglu. Ekki hafa borist fréttir af handtökum.