Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lánsfyrirtæki telur efnahagshorfur Íslands stöðugar

15.05.2021 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings gefur ríkissjóði Íslands lánshæfiseinkunnirnar A eða A-1. Fyrirtækið telur horfur stöðugar og að líklega verði áframhaldandi efnahagsbati í landinu síðari hluta ársins.

Mat fyrirtækisins er að batinn verði að miklu leyti háður viðsnúningi í ferðaþjónustunni. Einkunnir ríkissjóðs geta hækkað eða lækkað eftir því hvernig fram vindur.

Helsta áhyggjuefnið er að faraldurinn sæki í sig veðrið og að umsvif ferðaþjónustu verði áfram lítil. Mikil innlend eftirspurn eftir vörum og þjónustu hafi mildað efnahagssamdráttinn á síðasta ári en hann mældist nærri 7% að raunvirði.

Viðskiptajöfnuður var lítillega jákvæður, erlend skuldsetning tiltölulega lítil og gjaldeyrisforði nægur. Matsfyrirtækið gerir ráð fyrir að mestur hluti stuðningsaðgerða ríkissjóðs verði til baka dreginn undir áramót sem haldi aftur af hækkunum erlendra skulda.