Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Langt komnir með varnargarða

Framkvæmdir við hraunvarnargarða á gosstöðvunum eru langt komnar. Byggingarverkfræðingur sem stýrir framkvæmdinni segir að efniviðurinn í garðana mætti vera betri en þau nýti það sem hendi er næst.

Náttúruöflin sýna verktökunum á gosstöðvunum enga miskunn. Gígurinn heldur áfram sinni hraun-framleiðslu jafnt og þétt með háum og tignarlegu spýjum sem gleðja augað á meðan vélarnar keppast við.

Byrjað var á austurgarðinum í dag. Einar Jónsson hefur unnið á svona jarðýtu í meira en fimmtíu ár og hefur séð það svartara en þetta. 

Þetta hlýtur að vera pínu öðruvísi verkefni? „Já þetta er öðruvísi, ég hef aldrei lent í svona. Þetta er bara það sem þarf að gera,“ segir hann.

Þetta er jú það sem þarf að gera til að forða Nátthaga frá hrauninu og þannig Suðurstrandarvegi sem er þar nokkrum kílómetrum frá og ljósleiðara sem liggur niðurgrafinn um svæðið. Ekki er vitað hvaða áhrif hraunið myndi hafa á hann.

Vestari garðurinn er tilbúinn. „Það er að vaxa þrýstingur aftan við hann. Við sjáum breytingu frá því í gærkvöldi,“ segir Ari Guðmundsson, verkstjóri. Hægt er að hækka báða garðana upp í átta metra. Skörðin úr nafnlausa dalnum svokallaða eru tvö og þarf að fylla upp í þau bæði. 

„Austurgarðurinn er svolítið stærri og lengri. Við ætlum að gera hann fjóra metra í fyrst lotu. Við verðum sjálfsagt í dag og lungann úr deginum á morgun að koma honum upp í fjóra metra,“ segir hann.

Efnið í garðana er tekið á staðnum. En er það nógu gott? „Þetta er svolítið leirkennt efni. Hefði viljað fá meiri malarkennt efni í þessu. Við erum að tryggja það að ná góðri þjöppun, það er það sem skiptir máli. Til þess að hraunið geti ekki skotist undir stífluna. Þetta er þokkalegt efni myndi ég segja, mætti vera betra, en við notum það sem við höfum hérna,“ segir Ari.

 „Þú verður að fara vinninginn á móti hrauninu. Til þess er leikurinn gerður,“ segir Einar jarðýtustjóri.

Hefurðu einhverja trú á þessum görðum? „Já já. Það er bara að hafa þetta nógu hátt, það er nóg efni.“