Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jafntefli í Keflavík og Valur marði Fylki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Jafntefli í Keflavík og Valur marði Fylki

15.05.2021 - 15:54
Þriðja umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta fer fram í dag. Valur vann Fylki með einu marki gegn engu á Hlíðarenda og Keflavík og Þróttur skildu jöfn.

Valsarar voru með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina og þar sem síðasta leik Fylkis var frestað höfðu þær einungis spilað einn leik þegar þær fengu 9-0 skell frá Íslandsmeisturum Breiðabliks í fyrsta leik.

Eina markið í leik Vals og Fylkis gerði Mist Edvardsdóttir með skalla eftir fyrirgjöf Dóru Maríu Lárusdóttur á 24. mínútu. 1-0 sigur Vals niðurstaðan sem eru með því komnar á toppinn í bili, en Selfoss getur endurheimt toppsætið síðar í dag.

Á HS Orku vellinum í Keflavík áttust við Keflavík og Þróttur. Aerial Chavarin kom heimakonum í forystu eftir tíu mínútna leik og þannig stóð í leikhléi. Shea Moyer jafnaði svo metin fyrir gestina á 53. mínútu og 1-1 stóð. Tveimur mínútum síðar kom Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir Þrótturum í forystu 1-2. Sú forysta lifði í rúmar tíu mínútur en Amelía Rún Fjeldsted jafnaði metin fyrir Keflavík á 66. mínútu og varð það síðasta mark leiksins. 2-2 jafntefli því niðurstaðan og Keflavík er með 2 stig eftir 2 leiki en Þróttur þrjú.