Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

HK skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum í blaki

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

HK skrefi nær Íslandsmeistaratitlinum í blaki

15.05.2021 - 16:12
HK vann Aftureldingu í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki. HK vann 3-1 eftir mikinn baráttuleik en vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér titilinn.

HK byrjaði leikinn af krafti og vann fyrstu hrinuna með yfirburðum 25-14. Lið Aftureldingar kom hins vegar mun öflugra í aðra hrinu og unnu hana 17-25. Þriðja hrina var svo mun jafnari en fyrri tvær og bæði lið spiluðu virkilega vel. Afturelding komst í 14-16 en HK náði að jafna í stöðunni 20-20. Allt var í járnum þar til Matthildur Einarsdóttir kláraði hrinuna fyrir HK með laumu beint í gólf, og þá staðan orðin 2-1 fyrir HK.

HK konur voru öflugar í byrjun fjórðu hrinu og Afturelding virtist hafa fá svör en HK komst í 10-4. Ekkert gekk upp hjá Aftureldingu og HK komst í 19-9. Afturelding tók þá við sér og minkuðu muninn í 21-19. HK átti hins vegar frábæran lokakafla og kláruðu hrinuna 25-20.

Stigahæst í leiknum var Thelma Dögg Grétarsdóttir, í  Aftureldingu, með 24 stig og María Rún Gunnarsdóttir með 18 stig. Stigahæst í liði HK var Hjördís Eiríksdóttir með 16 stig. Með sigrinum er staðan orðin 1-0 fyrir HK í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en næsti leikur liðanna er á þriðjudaginn kemur á heimavelli Aftureldingar að Varmá.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn hefst á morgun