Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðafólki fjölgar og sóttkvíarhóteli bætt við á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnarhúsa, segir að bætt verði við sóttkvíarhótelum vegna fjölgunar flugferða til landsins. Fjórar farþegaþotur eru þegar komnar til landsins í dag og fjórar væntanlegar. Búist er við átta vélum á morgun en ferðum frá Osló og Munchen hefur verið aflýst. 

Gylfi segir í samtali við fréttastofu að aldrei sé öruggt hve mörg komi hverju sinni til vistar á hótelunum, en í dag séu um 100 herbergi laus sem fyllist fljótt. Því sé búið að rýma til á Hótel Rauðará sem hafi verið notað sem innanlandssóttkví. 

„Sú sóttkví verður nú flutt inn á Lind. Þar eru um 90 herbergi en það er fljótt að fyllast líka. Við vitum fyrirfram hve margir farþegar eru með hverri vél en svo þarf að komast hve margir skila sér. Það að fólk geti valið hvert það fer í sóttkví, flækir málið, því óvænt getur bæst við úr þeim hópi.“

Gylfi segir starfsfólkið komið í þjálfun að giska á hve margir farþegar komi frá rauðum löndum hverju sinni. Á þriðjudaginn bætast við 31 land eða svæði sem falla undir þá skilgreiningu að vera há-áhættusvæði eða rauð lönd.

„Almennt kemur ekki margt fólk hingað frá þeim rauðu löndum sem bætast við á þriðjudag. Hins vegar verður sú breyting að farþegar frá Spáni og Póllandi geta valið að dvelja heima hjá sér séu skilyrðin uppfyllt,“ segir Gylfi.

Hann kveðst bjartsýnn á að sú breyting minnki þrýsting á hótelin enda komi fjölmennustu hóparnir þaðan.

Með breytingunni 18. maí þurfa farþegar frá 164 ríkjum eða svæðum að dvelja í sóttvarnahúsi við komuna til landsins. Heimild er þó til að sækja um undanþágu en fólki frá 15 löndum eða svæðum verður það óheimilt, það á til að mynda við um Svía.

Gylfi upplýsti að samningur ríkisins við Rauða krossinn um rekstur á  sóttkvíarhótelum renni út um næstu mánaðamót. Enn eigi eftir að koma í ljós hvort ríkið hyggist halda landamærunum í þeim farvegi sem nú er eða hvort samið verði samið áfram við Rauða krossinn.