Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki upp á punt segir tilvonandi forseti borgarstjórnar

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Blað verður brotið í borgarstjórn í næstu viku þegar transkona verður forseti borgarstjórnar. Hún byrjaði tíu ára að fylgjast með borgarstjórnarfundum og segist ekki vera upp á punt - heldur sé henni treyst. 

Tíu ára fylgdist hún með borgarstjórnarfundum

Alexandra er búin að vera varaborgarfulltrúi Pírata í þrjú ár, hefur oft tekið sæti á borgarstjórnarfundum og hún á líka sæti í mörgum nefndum borgarinnar. Ráðhúsið hefur því verið aðalvinnustaðurinn lengi.  

„Ég byrjaði nú að koma hérna þegar amma vann hérna í móttökunni þá kom ég að heimsækja hana á daginn. Ég hef verið svona 9, 10, 11 ára,“ segir Alexandra Briem tilvonandi forseti borgarstjórnar. 

Tíu ára fylgdist hún með borgarstjórnarfundum og svo um tvítugt vann hún tvö sumur með ömmu í móttökunni og líka í húsvörslu. 

Af hverju fannst þér spennandi að vera hér þegar þú varst tíu ára?

„Ég veit það ekki. Ég bara fann að þetta væri mikilvægt, eitthvað sem væri nauðsynlegt og þyrfti að gera vel.“

Hélt að bara ákveðnar týpur ættu að vera í pólitík

Og jú hún sá fyrir sér að kannski væri það hugsanlegt eftir mörg ár að það gæti verið mögulegt að hún færi í borgarstjórn. 

„Mér einhvern veginn leið alltaf eins og þú þyrftir að vera einhver sérstök týpa til þess að mega fara í pólitík. Svo fattaði ég einhvern tíma upp úr hruni að það var ekkert þannig. Það gætu allir verið í pólitík og jafnvel bara betra að vera ekki eitthvað svona innmúraður pólitíkus.“

Sá þetta aldrei fyrir sér

Og hingað hefur hún náð og í lok næsta borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn verður hún kjörinn forseti borgarstjórnar. 

„Ég reyndar verð að viðurkenna að ég sá ekki aldrei fyrir mér að verða valin sem forseti borgarstjórnar. Það er eiginlega meira en ég átti von á. Það er æðislegt og bara ég er rosalega stolt.“

Meirhlutinn hefur ekki flaggað henni því hún er trans

Alexandra vissi þegar hún var fjögurra, fimm ára að hún væri stelpa. Það var ekki fyrr en löngu löngu síðar að hún steig skrefið til fulls og fór í kynleiðréttingarferli. Og ekki þarf að taka fram að aldrei fyrr hefur transkona verið forseti borgarstjórnar. 

„Þá finnst mér líka bara mjög mikilvægt að það komi fram að ég hef aldrei upplifað það hvorki í Pírötum né í samstarfinu í meirihlutanum að það sé verið að flagga mér sem einhvers konar skrauti. Eða þú veist að ég sé bara að fá einhverjar ábyrgðir eða stöðu út af því að fólk vilji sýna að það sé frjálslynt og styðji transfólk. Það er hvað segjum við aukaafurð af því að mér sé treyst fyrir þessum hlutum eða þannig. Mér finnst það alveg mikilvægur punktur. Ég myndi ekki vilja taka að mér eitthvað svona ef það væri bara upp á punt.“

Aldrei eins erfitt að taka skrefið og að gera ekkert

Transfólk hefur átt erfitt uppdráttar í heiminum: 

„Transfólk er sá hópur á heimsvísu sem verður hvað mest fyrir ofbeldi. Ég held að transkonur séu mest myrti samfélagshópurinn á höfðatölu í heiminum.“

Ég veit að fólk sem er trans og þeir sem eru kannski að byrja sýna vegferð á erfitt eru einhver skilaboð sem þú átt fyrir þennan hóp?

„Já, þetta er aldrei jafn erfitt og að gera ekkert. Það er miklu betra að takast á við þetta og vera heiðarleg með hver við erum.“

Það er erfiðara að fela og geyma inn í sér, segir Alexandra, því þetta fer ekkert. Það er ekki hægt að lifa lífinu sem manneskja sem annað fólk heldur að þú sért: 

„Þetta snýst svolítið mikið um það að vera þú. Þú skuldar engum neitt annað heldur en það.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Alexandra Briem.