Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

COVID-smit í Eurovision - pólski hópurinn í sóttkví

15.05.2021 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: EBU - RÚV
Einn úr pólsku sendinefndinni í Eurovision hefur greinst með kórónuveiruna. Allur pólski hópurinn hefur verið sendur í sóttkví en hann var síðast við æfingar á fimmtudag. Pólland er í sama undanriðli og Ísland og það sem meira þá er pólski hópurinn á sama hóteli og sá íslenski. „Okkur skilst að hótelið verði þrifið hátt og lágt og sótthreinsað í dag,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins.

Greint var frá smitinu í tilkynningu frá Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU. 

Stífar sóttvarnareglur eru í gildi og keppendur mega ekki fara út fyrir ákveðin svæði.  Sá sem greindist með smitið er kominn í einangrun en allur pólski hópurinn þarf að vera í sóttkví og fara í skimun. 

Hann mun því ekki taka þátt þegar allir keppendurnir verða kynntir til leiks með formlegum hætti á morgun, sunnudag.

Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, segir að nú fari ákveðið ferli í gang, Pólverjarnir fari í nákvæmari próf og greint verði frá niðurstöðum þeirra síðar í dag. „Við bíðum bara fyrirmæla um næstu skref.“

Íslenski hópurinn hefur lagt mikið upp úr því að fara varlega, haldið sig til hlés og ætlar að halda því áfram. „Þetta er bara ákveðin vakning, veiran er enn á sveimi og Holland er auðvitað rautt svæði,“ segir Felix en Daði og gagnamagnið hans eru þessa stundina í skoðunarferð um Rotterdam.

Ef upp er komin hópsýking í pólska hópnum fær hann að notast við upptöku á framlagi sínu. Um það gilda sérstakar reglur og er flutningurinn tekinn upp í einu lagi, líkt og viðkomandi væri að keppa í Eurovision.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV