Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aðgerðastjórn Skagafjarðar fundar um COVID-stöðuna

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tvö COVID-smit greindust í gær og voru viðkomandi í sóttkví. Aðgerðastjórn í Skagafirði, þar sem strangari samkomutakmarkanir eru, fundar síðar í dag og segist sveitarstjórinn þokkalega bjartsýnn á að hægt verði að rýmkar reglurnar í næstu viku. 

Engin smit greindust á landamærunum. Tölurnar eru bráðabirgðatölur, en staðfestur fjöldi smita liggur ekki fyrir fyrr en á mánudag. Undanfarið hefur Skagafjörður verið helsta smitsvæðið.

„Staðan eins og hún er akkúrat núna er bara ágæt og horfur ágætar. Það hafa auðvitað komið upp nokkur smit í vikunni en þau hafa öll verið innan sóttkvíar þannig að við erum að ganga hægt og bítandi á þennan lista og fólk að losna úr sóttkví þegar það fær neikvæða niðurstöðu en aðrir þurfa þá að sæta lengri einangrun.“
Nú greindust tvö smit á landinu í gær, bæði í sóttkví, voru þau hjá ykkur?
„Já, þau voru hjá okkur,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri.

Skagfirðingar hafa undanfarið búið við strangari samkomutakmarkanir en aðrir landsmenn og reglurnar núna gilda til mánudagsins 17. maí.

„Aðgerðarstjórn mun funda í dag og taka mat á horfum og hvernig þetta getur orðið. Ef ég á að tala fyrir mig persónulega þá er ég þokkalega bjartsýnn á að við getum verið að horfa á rýmkanir í næstu viku.“

Sigfús Ingi segir að mjög hátt hlutfall íbúa hafi verið í sóttkví og margs konar þjónusta og starfsemi takmörkuð. Hann segir íbúa hafa sýnt samstöðu og farið að reglum.

„Já, það er ekki annað hægt en að hrósa fólki, því fólkið hefur staðið saman sem einn maður og allir einbeittir í að sigla samanþjappaðir í gegnum þetta,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar.