Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

2020 var metár í sögu ÁTVR

15.05.2021 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar V - RÚV
„Árið 2020 verður lengi í minnum haft hjá starfsfólki ÁTVR. Reksturinn var óvenjulegur og var afkoma ársins langt umfram áætlun. Heildarveltan fór yfir 50 milljarða og hefur aldrei, í tæplega hundrað ára sögu ÁTVR, verið svo há." Þannig hefst formáli Ívars J. Arndal, forstjóra ÁTVR, að árs- og samfélagsskýrslu fyrirtækisins, sem lesa má á vef þess.

Ívar segir að í upphafi síðasta árs hafi ekkert bent til þess að eitthvað óvenjulegt væri á seyði, en svo dundi heimsfaraldurinn yfir og veltuhraði í dreifingarmiðstöð ÁTVR jókst um 20 prósent á árinu. Er staðan nú þannig að öllum lagernum er velt á innan við níu dögum að meðaltali yfir árið, en birgðir í miðstöðinni eru að jafnaði um 600.000 lítrar 

Áfengi fyrir hálfan milljarð á einum degi

Áfengissala jókst um rúmlega 18 prósent í lítrum talið í fyrra. Viðskiptavinir ÁTVR voru 5,5 milljónir talsins og þeir keyptu 26,8 milljónir lítra af áfengi fyrir 38.4 milljarða króna. Mest var salan daginn fyrir gamlársdag, þegar rúmlega 286.000 lítrar voru seldir fyrir ríflega hálfan milljarð króna.

Þá seldist tóbak fyrir 12,5 milljarða í fyrra og nam tóbaksgjald tæplega 6 milljörðum. Sala á sígarettum jókst um 8,6 af hundraði á milli ára en Íslendingar keyptu rúmlega 25 tonn af neftóbaki, sem er nær 45 prósentum minna en árið áður. 

Hagnaður ársins nam ríflega 1,8 milljörðum króna.

Nálgast má ársskýrslu ÁTVR á vef fyrirtækisins.