Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

20 leita árlega til læknis vegna raka og myglu hjá LSH

15.05.2021 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Árlega leita að meðaltali 20 starfsmenn Landspítalans til trúnaðarlæknis vegna einkenna sem þeir telja geta stafað af rakavanda/myglu í starfsumhverfi sínu. Enginn starfsmaður hefur þó fengið greiddar bætur vegna afleiðinga myglu. Síðustu þrjú ár hefur um 900 milljónum verið varið í viðhald vegna rakaskemmda ár hvert.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins. 

Í svarinu eru taldar upp þær byggingar sem hafa verið skoðaðar. Þær eru allnokkrar, enda spítalinn með starfsemi í 100 byggingum á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Ráðherra segir í svarinu að flestar þeirra séu komnar til ára sinna.

Ekki var hægt að meta kostnað vegna langtímaáhrifa á heilsu þar sem mygla í atvinnuhúsnæði hefur verið ekki verið skilgreindur sem atvinnusjúkdómur.  Á það er bent að göngudeild lyflækninga hafi tekið á móti 424 sjúklingum frá árinu 2013 sem allir töldu að veikindi þeirra mætti rekja til rakavanda eða myglu á vinnustað. Áætlað er að helmingur þeirra hafi verið starfsmenn Landspítalans.

Ráðherra upplýsir að upp hafi komið aðstæður þar sem viðgerðir voru ekki réttlætanlegar. „Í þeim tilfellum er um að ræða minna og almennt húsnæði, svo sem bráðabirgðaskrifstofuhúsnæði og gamalt íbúðarhúsnæði á Kleppi og Vífilsstöðum.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV