Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að hægt verði að sleppa grímum í júní eða júlí

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sóttvarnalæknir vill ekki afnema grímunotkun bólusettra eins og gert hefur verið í Bandaríkjunum. Hann vonar að hægt verði að slaka almennt á grímunotkun í júní eða júlí en þá ættu sex til sjö af hverjum tíu að hafa verið bólusett. Nokkur dæmi eru um að smit hafi greinst hjá bólusettu fólki hérlendis, segir sóttvarnalæknir.

Í nýjum leiðbeiningum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna í vikunni segir að fullbólusettir geti nú verið án grímu og sleppt tveggja metra reglunni með þeim fyrirvara þó að grímunotkunar sé ekki krafist í reglum einstakra ríkja eða sveitarfélaga. Tæp 40 prósent Bandaríkjamanna eru fullbólusettir og nærri 50 prósent ef hálfbólusettir eru taldir með. Hlutfall fullbólusettra hér á landi er 22 prósent. 
 
„Það kemur bara að því eins og öðrum afléttingum á sóttvarnaaðgerðum,“

segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir enda sé ekki komið hjarðónæmi þjóðfélaginu. 
 
„Við höfum verið að greina smit hjá jafnvel bólusettum þó að það sé mjög sjaldgæft þ.a. ég held að sá tími sé ekki alveg kominn eins og staðan er núna.“

Eru það mörg tilfelli bólusettra sem greindir eru?

„Það eru nokkri já.“

Á landamærum?

„Já og líka hér innanlands.“

Þótt allir skilji mikilvægi þess að bera grímu þá eru eflaust margir orðnir þreyttir á því. Þórólfur segir grímuskyldu vera eitt af mörgu sem þurfi að aflétta. Tilslakanir verði þó gerðar í áföngum. 

Það þarf að skoða þetta í heild.“

En hvað slærðu á, ágúst eða?

„Nei, ég held að þegar við erum búin að ná 60 til 70 prósent þátttöku í samfélaginu að þá held ég að staðan sé orðin ansi góð. Og það ætti að nást svona í júní, júlí, held ég, vonandi.“