Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þingflokkur VG fordæmir ísraelsk stjórnvöld

14.05.2021 - 12:23
epa09198137 A Palestinian woman walks next a destroyed house after an Israeli strike in Gaza City, 13 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least six Israelis to date. Gaza Strip's health ministry said that at least 65 Palestinians, including 13 children, were killed in the recent retaliatory Israeli airstrikes. Hamas confirmed the death of Bassem Issa, its Gaza City commander, during an airstrike.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza eru óverjandi, að mati þingflokks Vinstri grænna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ráðast þurfi að rót vandans.

Í yfirlýsingunni fordæmir þingflokkur Vinstri grænna valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo séu eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Einnig segir í yfirlýsingunni að harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza, loftárásir með fullkomnum vopnum á ofurþéttbýl svæði Palestínumanna séu óverjandi. Að auki er minnt á samþykkt Alþing­is Íslend­inga frá 2011 um viður­kenn­ingu á sjálf­stæði og full­veldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis.

Katrín tekur undir með Guterres

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, segir dapurlegt að fylgjast með gangi mála. „Ég auðvitað bara tek undir með aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, sem hefur talað mjög skýrt í þessum efnum. Það er þörf á því að gert verði vopnahlé strax. Og aðilar leiti friðsamlegra lausna á þessum átökum.“ 

Hafa stjórnvöld í Ísrael gengið of langt í sínum viðbrögðum? „Menn verða að leggja niður vopn strax og við erum sjá mannfall beggja vegna en miklu meira Palestínumegin. Rót þessa vanda er auðvitað að þarna þarf að finna frið í kringum tveggja ríkja lausn og við vitum öll að það hefur ekki gengið. En það er auðvitað rót vandans sem þarf að ráðast að,“ segir Katrín.  

Yfirlýsing þingflokks VG:

„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Þær eru gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum.

Þá eru harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza-strönd til Ísraels, loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofur þéttbýl svæði Palestínumanna, óverjandi. Lögregluaðgerðir ísraelskra yfirvalda gegn mótmælendum í Jerúsalem eru einnig óverjandi.

Vinstri græn hafi ávallt lagt áherslu á nauðsyn þess að leitað sé friðsam­legra lausna í deil­um fyr­ir botni Miðjarðar­hafs. Raun­veru­leg­ur friður kom­ist aldrei á með vopna­valdi og kúg­un og mik­il­vægt sé að standa vörð um alþjóðalög og brjóta ekki á mann­rétt­ind­um íbúa svæðis­ins.

Þingflokkur Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs minn­ir jafn­framt á samþykkt Alþing­is Íslend­inga frá 2011 um viður­kenn­ingu á sjálf­stæði og full­veldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis.“