Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sýnir að almenningur hefur áhuga á sjávarútvegi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Forstjóri Síldarvinnslunnar segir mikinn áhuga á hlutabréfum í fyrirtækinu sýna að almenningur hafi enn mikinn áhuga á sjávarútvegi. Hann segir niðurstöðuna styrkja félagið mjög í þeim fjárfestingum sem framundan eru.

Mikill áhugi var á bréfum í Síldarvinnslunni og óhætt að segja að hlutafjárútboðið, sem lauk á miðvikudag, hafi verið vel heppnað. Eftirspurn var tvöföld og var endanlegt útboðsgengi við efri mörk verðbils. Gjalddagi bréfanna er þann 20. maí og verður endanlegur hluthafalisti birtur þá.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, er hæstánægður með niðurstöðu útboðsins og segir að í henni felist mikil traustsyfirlýsing. Áhuginn hafi verið mikill bæði meðal almennings og fagfjárfesta. „Mér finnst mjög jákvætt að upplifa hvað það eru jákvæðir straumar í kringum þetta og að almenningur hafi í rauninni mikinn áhuga á íslenskum sjávarútvegi.“

Styrkir fyrirtækið í uppbyggingu

Gunnþór segir að meginmarkmið útboðsins hafi verið að hleypa almenningi að félaginu og það markmið hafi náðst. Þá skipti það miklu að nú loks sé komið fyrirtæki með höfuðstöðvar á landsbyggðinni inn í kauphöllina.

Gunnþór segir skráningu félagsins á markað opna ný tækifæri og styrkja þá uppbyggingu sem framundan er. „Eins og kemur fram í gögnum erum við að taka við nýju uppsjávarskipi sem er verið að smíða í Danmörku í lok mánaðarins vonandi og við erum að ráðast í mikla stækkun á fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað. Það er framkvæmd sem mun spanna næstu þrjú til fjögur ár og er upp á fimm milljarða. Þetta eru miklar fjárfestingar í sjávarútvegi. Það er mikil fjárbinding. En þetta er liður í okkar framtíðarsýn.“