Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reyna að hemja framgang hrauns með stíflum

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Verktakar vinna í kappi við tímann við að reisa garða til að varna því að hraun renni í Nátthaga, en það gæti ógnað Suðurstrandarvegi. Verktaki segir vel raunhæft að stöðva hraunflæðið og býst við að klára verkið um helgina. 

Það var ekki aðeins gígurinn sem lét í sér heyra við gosstöðvarnar í dag. Þangað eru komnar stórvirkar vinnuvélar og flokkur verkfræðinga til að reisa varnargarð, eða einhvers konar stíflu til að varna því að hraunið renni úr nafnlausa dalnum svokallaða, sem er reyndar syðsti dalur Meradala, niður í Nátthaga. Nýju varnargarðarnir voru til umræðu í ríkisstjórn í morgun. Og það þarf að hafa hraðar hendur.

„Það var beðið í lengstu lög og við máttum alls ekki bíða lengur,“ segir Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís verkfræðistofu.

Mikið atriði þykir að missa hraunið ekki niður í Nátthaga, þar sem þaðan eru aðeins nokkrir kílómetrar að Suðurstrandarvegi. Hraunið myndi líka fara yfir niðurgrafinn ljósleiðara og ekki ljóst hvaða áhrif það hefði á hann. „Það var ákveðið í gærkvöldi að bíða ekki nóttina heldur fara í nótt að ýta upp svokölluðum neyðarruðningi upp að hrauninu hér. Til að tryggja vinnusvæði til að við gætum byggt þessar stíflur. Við verðum hérna yfir helgina,“ segir Ari.

Botnfylli í nafnlausa dalnum

Hraunflæði úr gígnum hefur verið um um 70% meira undanfarna rúma viku en áður í gosinu samkvæmt nýjustu mælingum Jarðvísindastofnunar, og það sést vel í nafnlausa dalnum. Hraunið hefur svo gott sem fyllt dalinn undanfarna daga. 

Vísindamenn frá Háskóla Íslands voru við rannsóknir á hraunflæði í dag. „Hraunið er virkt í suður Geldingadal, í nafnlausa dalnum og líka í Meradal. Svo það er virkt á mörgum stöðum núna. Það er mikið rennsli í gangi svo það er skiljanlegt,“ segir Gro Birkefeldt Møller Pedersen, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun. 

Misst efni í garðana undir hraun

Niður í Nátthaga eru tvö skörð frá dalnum og því verða stíflurnar tvær. Vestur og austurstífla, Þær verða fyrst fjórir metrar en hægt er að hækka þær eftir þörfum upp í allt að átta. Byrjað var vestan megin þar sem hraunið er komið lengra þar. „Við erum meira í kapphlaupi við tímann hér. Við vorum að fá hraunrennsli yfir það efnistöku svæði sem við ætluðum að nota í stíflurnar. Það var meiningin fyrst að nota efni fyrir innan stífluna hraunmegin, það er raunverulega ekki hægt núna vegna þess að hraunið er komið inn að stíflustaðnum. Svo við erum bara að vinna með það efni sem við höfum hérna á svæðinu,“ segir Ari.

Er raunhæft að búa til stíflu gegn glóandi hrauni? „Já það er raunhæft. Það hefur verið reynt í Vestmannaeyjum, það var partur af hraunvörnum þar. Líka með góðum árangri erlendis, Etnu á Ítalíu og Hawaii og fleiri stöðum,“ segir Ari.

„Þetta er spennandi tilraun, ég held að menn geti ekki gert annað en að prufa. Það er hægt að fá hraunið til að fara smá meira niður í Meradali, ef þetta gos heldur áfram mjög lengi,“ segir Gro.