Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Picasso-verk keypt fyrir 103 milljónir Bandaríkjadala

Mynd með færslu
 Mynd: PA

Picasso-verk keypt fyrir 103 milljónir Bandaríkjadala

14.05.2021 - 09:22

Höfundar

Málverk sem spænski listmálarinn Pablo Picasso málaði árið 1932 seldist á uppboði hjá uppboðshúsinu Christie's í New York í gær fyrir jafnvirði tæpra 13 milljarða króna. Salan þykir sýna styrka stöðu listmarkaðarins og ekki síður Picassos sem listamanns, en hann lést árið 1973.

Málverkið er í kúbískum stíl, gengur undir heitinu „Kona situr við glugga (Marie-Therese)“ og sýnir hjákonu málarans og músu, Marie-Therese Walter.

Kaupandinn er búsettur í Kaliforníu og borgaði 90 milljónir Bandaríkjadala fyrir verkið en heildargreiðsla fyrir það nam ríflega 103 milljónum með gjöldum og umboðslaunum.

AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni uppboðshússins að áætlað hafi verið að verkið seldist fyrir um 55 milljónir dala. Salan þykir sanna hve líflegur listaverkamarkaðurinn er, þrátt fyrir heimsfaraldur, og ekki síður styrka stöðu Picassos sem listamanns.

Fimm verka hans hafa selst fyrir meira en 100 milljónir Bandaríkjadala undanfarin ár og „Konurnar í Algeirsborg“ þeirra dýrast. Það var keypt fyrir rúmar 179 milljónir dala árið 2015.  

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Víðförult málverk eftir Churchill boðið upp

Myndlist

Metverð fékkst fyrir simpansa-málverk Banksy