Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pálmi stígur fram í sviðsljósið

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Magnúsdóttir - Facebook

Pálmi stígur fram í sviðsljósið

14.05.2021 - 14:52

Höfundar

Undir fossins djúpa nið er fyrsta sólóplata Pálma Sigurhjartarsonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Pálmi Sigurhjartarson á áratuga feril að baki í íslenskri tónlist sem lagahöfundur, meðleikari og flytjandi. Hér stígur hann fram fyrir tjaldið sem sólólistamaður á tvöföldu plötunni Undir fossins djúpa nið. Platan inniheldur sautján lög eftir höfundinn sem auk þess að spila á hljómborð, útsetur og syngur stóran hluta plötunnar.

Vinnslan við verkið hefur tekið drjúgan tíma og er útgáfan vegleg. Platan er á tvöföldum vínil, í þykku, opnanlegu umslagi („gatefold“) og ljóst að hvergi hefur verið slegið af í gæðakröfum. Stóreflismynd af höfundi framan á, sólóverkið undirstrikað, og þegar umslagið er opnað blasa við myndir og nákvæmar upplýsingar um hvert og eitt lag. Vínillinn sjálfur þykkur og góður og „nærbuxurnar“ prýða textarnir við lögin.

Sólóplata er í sjálfu sér rangnefni enda tugir manna sem leggja gjörva hönd á plóg, sannkallað landslið söngvara og hljóðfæraleikara. Og er ekki að undra, enda hefur Pálmi spilað með þeim öllum í gegnum tíðina við hin margvíslegustu tilefni. Söngur er að mestu í höndum Pálma eða eins og hann útskýrði fyrir mér á dögunum: „Mér fannst það réttast, úr því að verkefnið væri svona. Annars hefði þetta hljómað eins og einhver söngvarasafnplata.“

Á meðal hljóðfæraleikara eru Benedikt Brynleifsson, Róbert Þórhallsson, Einar Þór Jóhannsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Matthías Stefánsson, Birkir Freyr Matthíasson, Björgvin Ploder, Sváfnir Sigurðarson, Eiður Arnarsson, Þórður Högnason og… nei, nú hætti ég. Þetta fólk pikkaði ég upp úr átta fyrstu lögunum. Eins og sjá má er mannvalið svakalegt.

En hvernig er tónlistin? Pálmi leggur sig að mestu eftir ballöðukenndu popprokki mætti segja en reynsla hans úr leikhúsheiminum kemur sér líka vel. Titillagið opnar plötuna, skammlaus ástarsöngur, blíður og fallegur og strax í næsta lagi dúettar hann með sjálfri Andreu Gylfadóttur. Lagið í sama stíl og titillagið, ljúfkennt og þýtt. Björn Hlynur Haraldsson syngur djassaða smíð, „Um langan veg“, en aðrir söngvarar eru Jogvan Hansen, Valgerður Þorsteinsdóttir, Dagný Halla Björnsdóttir, Björgvin Halldórsson og KK. Lag Björgvins er æði. Nema hvað! Strengjalegin ballaða af gamla skólanum (smá Gunni Þórðar í gangi) og Bó syngur eins og sá sem valdið hefur. KK syngur hið ægifagra „Eftirsjá / Lag fyrir Fróða“. Í því er harmur sem KK kemur afskaplega vel til skila.

Það er eitthvað rómantískt, tímalaust og „íslenskt“ við þessa sólóplötu Pálma og er það vel.