Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lítur nafnlausa auglýsingu alvarlegum augum

Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Lyfjastofnunar lítur nafnlausa heilsíðuauglýsingu sem birtist í morgunblaðinu í gær mjög alvarlegum augum, í henni var fólk hvatt til að tilkynna ýmsar aukaverkanir til Lyfjastofnunar og ýjað að því að auglýsingin væri þaðan komin. Útgáfufélagið Árvakur hefur beðist velvirðingar á því að hafa birt auglýsinguna án þess að geta þess hver fjármagnaði hana. 

„Það er eiginlega verið að gefa til kynna að annað hvort sé þetta á vegum okkar á Lyfjastofnun eða mögulega Landlæknisembættisins eða sóttvarnalæknis. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar svona framsetning býður upp á að fólk viti ekki hvaðan upplýsingarnar koma,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Í frétt á mbl.is var greint frá því að Vilborg Björk Hjaltested hefði keypt auglýsinguna. Útgáfufélagið Árvakur hefur beðist velvirðingar á því að hafa birt auglýsinguna án þess að geta þess hver fjármagnaði hana. Í viðtali við Vísi viðraði Vilborg efasemdir um virkni og öryggi bóluefna og hélt því fram að 16 hefðu látið lífið á Íslandi vegna bóluefnisins, en ekki hefur verið úrskurðað um hugsanleg orsakatengsl.

Stofnunin vilji heyra af aukaverkunum

Rúna segir Lyfjastofnun endilega vilja heyra af aukaverkunum sem fólk finnur fyrir, hún hvetur fólk til að gera það í gegnum vefgátt Lyfjastofnunar, ekki hringja - eins og hvatt var til í auglýsingunni.  Þá segir hún að í auglýsingunni hafi verið taldar upp ýmsar aukaverkanir sem ekki hafi verið tengdar bóluefnum. „Þetta er  mjög víðtækur listi og ekki í samræmi við það sem kemur fram í texta um bóluefni, hins vegar erum við alltaf vakandi fyrir því að það geta komið upp aðrar aukaverkanir en þær sem eru komnar fram núna en þetta er sett fram á þann hátt að þetta séu aukaverkanirnar sem þú gætir fengið af bóluefnunum, það er ekki rétt.“ Rúna telur að auglýsingin sé sett fram í þeim tilgangi að vekja ótta.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV