Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland sem samgöngu- og þjónustumiðstöð norðurslóða

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Lagt er til að Ísland verði samgöngu- og þjónustumiðstöð norðurslóða í nýrri skýrslu um efnahagstækifæri á norðurslóðum. Margvísleg tækifæri felist í væntanlegum breytingum á svæðinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði starfshóp í október 2019 til að greina í heild efnahagsuppgang sem er fyrirséð að verði á norðurslóðum og meta hvernig hagsmunum Íslands væri best borgið. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í dag. Formaður starfshópsins segir að með hlýnun jarðar sé heimsmyndin að breytast.

„Við erum norðurslóðaríki og það er eiginlega okkar hlutverk að bæði setja upp áætlun fyrir okkur, hvernig við ætlum að nýta efnahagsleg tækifæri í þessu, en ekkert síður að hafa áhrif á það að við séum að leggja áherslu á sjálfbærni á norðurslóðum, að við séum að vernda umhverfi norðurslóða,“ segir Árni Sigfússon formaður starfshópsins.

Í skýrslunni koma fram 57 tillögur sem settar eru fram í tíu liðum. Þeir eru norðurslóðaríkið Ísland þar sem hvatt er til breiðs vettvangs um norðurslóðamál. Gætt verði að ímynd Íslands, ósnortinni náttúru og sjálfbærni í nýtingu auðlinda. Íslensk stjórnvöld þurfi að styðja áfram við Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvang um málefni norðurslóða og að Hringborð norðurslóða verði notað með markvissum hætti til að setja þessi mál á oddinn. Þá er lagt til að Ísland verði samgöngu- og þjónustumiðstöð norðurslóða, staðsetning landsins og innviðir, íslausar hafnir og fleira styðji við það. Þá hafi aukin umferð um svæðið aukið þörf á öryggisviðbúnaði sem þurfi að huga að. Starfshópurinn segir ýmis tækifæri blasa við, fyrir fjárfesta og í viðskiptum, í tengslum við breytingar á svæðinu. Þá er fjallað um tækifæri í sjávarútvegi, landbúnaði og matvælaframleiðslu. Einnig séu ýmis tækifæri í ferðamennsku. Þekking á norðurslóðum sé takmörkuð og Ísland eigi að styrkja stöðu sína sem alþjóðleg miðstöð vísinda og nýsköpunar á þessum svæði. 

Utanríkisráðherra segir mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir stöðu mála og hann hafi í ráðherratíð sinni lagt áherslu á norðurslóðir. Þetta sé þriðja skýrslan um svæðið sem hann hafi látið vinna og þær eigi að nýta.

„Ég legg á það áherslu í þeim starfshópum sem ég hef haft að tillögurnar séu númeraðar og að menn taki afstöðu til þeirra  það er líka afstaða að gera það ekki. En við erum ekki að semja skýrslur bara til að semja skýrslur. Það er til þess að ná árangri og framkvæma þær tillögur sem við viljum framkvæma,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV