Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ísland orðið grænt aftur eftir appelsínugula tíð

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/ECDC - RÚV
Ísland er orðið grænt aftur hjá Sóttvarnastofnun Evrópu sem þýðir að nýgengi smita er komið undir 25 á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Ísland er eina landið í Evrópu sem er skilgreint grænt en stór svæði í Finnlandi og Noregi eru einnig græn. Færeyjar og Grænland eru ekki inni í þessum tölum en þau eru bæði metin örugg lönd af yfirvöldum hér á landi og íbúar þeirra eru undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum við komuna til landsins.

Ísland hafði verið grænt um nokkurt skeið en varð appelsínugult í byrjun apríl þegar smitum fjölgaði nokkuð.

Undirtegundir af breska kórónuveiruafbrigðinu höfðu náð útbreiðslu og aðgerðir innanlands og á landamærunum voru hertar.

Rétt er að taka fram að tölurnar á covid.is hafa ekki verið uppfærðar eftir frídag í gær. Fimm greindust með smit á miðvikudag, að því er fram kom í bráðabirgðatölum frá almannavörnum í gær. Þau voru öll í sóttkví.  

Á miðvikudag voru 75 í einangrun með virkt smit og 483 í sóttkví. Nýgengi innanlands var þá 16,1 og 2,7 á landamærunum. 

Nú hafa nærri 145 þúsund fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, bólusetning er hafin hjá 82.500 og 62.300 teljast fullbólusettir.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV